Hefur ekki enn jafnað sig andlega

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var kýld í miðborg Kaupmannahafnar á …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var kýld í miðborg Kaupmannahafnar á föstudag. AFP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur ekki enn jafnað sig andlega eftir árásina sem hún varð fyrir á föstudag. 

Þessu greindi hún frá í viðtali við danska ríkisútvarpið í dag, en það er fyrsta viðtalið sem hún hefur veitt frá því árásin átti sér stað.

Maðurinn ölvaður þegar brotið var framið

Lögreglan handtók 39 ára gamlan pólskan mann vegna árásarinnar, en að sögn lögregluyfirvalda var hann mjög ölvaður þegar brotið var framið.

Frederiksen segir að árásin hafi haft andlegar afleiðingar fyrir hana fremur en líkamlegar.

„Ég þurfti smá frið. Þetta var virkilega óhugnanlegt, og ég er í rauninni ekki orðin ég sjálf aftur,“ segir ráðherrann. 

„Sem manneskja fannst mér þetta vera árás á mig. En ég efast ekki um að þessari árás hafi verið beint að embættinu sjálfu, og að því leyti var þetta árás á okkur öll.“

„Fólk virðist gleðjast yfir ofbeldi“ 

Frederiksen segir atvikið hafa átt sér stað eftir tíma sem hefur einkennst af mikilli fjandsemi í hennar garð á samfélagsmiðlum, og jafnvel ógnunum.

Þá kveðst hún hafa tekið eftir breytingum undanfarið hvað varðar andann í dönsku stjórnmálum, sérstaklega í kjölfar átakanna á Gasasvæðinu. Fólk leyfi sér oft og tíðum að vera ógnandi og ágengt á almenningsstöðum. 

„Við höfum séð, þvert á alla flokka, að mörkin verða sífellt óskýrari, og fólk virðist gleðjast yfir ofbeldi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka