Þúsund gæludýr urðu eldi að bráð

Slökkvilið kom að mörgum eyðilögðum dýrabúrum.
Slökkvilið kom að mörgum eyðilögðum dýrabúrum. AFP

Um 1.000 gæludýr urði eldi að bráð í bruna sem varð á hinum fræga útimarkaði Chatuchak í Bangkok.  

Breska ríkisútvarpið greinir frá. 

Enginn mannskaði

Fram kemur að skammhlaup hafi valdið eldinum sem varð til þess að tæplega hundrað sölubásar brunnu til grunna.

Þá hafi enginn mannskaði verið tilkynntur en fuglar, hundar, kettir, snákar og önnur gæludýr orðið eldinum að bráð. 

Chatuchak-markaðurinn er einn sá stærsti í Suðaustur-Asíu og sækja hann tæplega 200.000 ferðamenn hverja helgi. Á markaðnum eru tugir þúsunda bása þar sem fjölbreyttur varningur er seldur, en á ákveðnum hluta markaðarins eru seld gæludýr.

Búið var að slökkva eldinn hálftíma eftir hann kviknaði.
Búið var að slökkva eldinn hálftíma eftir hann kviknaði. AFP

Mikið vonleysi

„Þegar ég kom hingað var allt farið, allt brunnið til grunna,“ er haft eftir einum seljanda, Amporn Wannasut. Bætir hún við að hún hafi drifið sig á markaðinn um leið og hún heyrði um brunann en verið of sein til að bjarga neinu af þeim dýrum sem ætluð voru til sölu á markaðinum.

Sjálf seldi hún skjaldbökur, snáka og önnur skriðdýr. 

„Ég veit ekki einu sinni hvað skal gera næst. Ég held að við þurfum að byrja alveg upp á nýtt en ég veit ekki hvernig,“ er haft eftir Wannasut en eldurinn olli miklu tjóni á flestum þeim 118 sölubásum markaðarins þar sem seld eru gæludýr. Áætlað er að eldurinn hafi eyðilagt um 1.400 fermetra af markaðinum.  

Dýraverndunarsinnar ósáttir

Eldsvoðinn hefur vakið athygli dýraverndunarsamtakanna PETA og hafa þau gefið út yfirlýsingu um að atvikið kalli á tafarlaus viðbrögð. 

„Dýr eru ekki okkur til skemmtunar... PETA biðlar til tælenskra yfirvalda að tryggja að þessi staður, þar sem innilokuð dýr þjást, opni aldrei aftur,“ er haft eftir varaforseta samtakanna, Jason Baker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert