Sjúkraflutningamaðurinn leystur frá störfum

Sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur verið leystur frá störfum eftir að hann var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn konu sem verið var að flytja í sjúkrabifreið á leið í Landspítalann við Hringbraut.

Kemur þetta fram í yfirlýsingu, sem Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) hefur sent frá sér í framhaldi af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær sem dæmdi manninn í níu mánaða fangelsi fyrir brotið.

Maðurinn var fundinn sekur af því að hafa tekið brjóstahaldara niður fyrir brjóst konunnar, káfað á og sleikt brjóst hennar, strokið hendi yfir skapahár hennar innan klæða og káfað á innanverðum lærum og kynfærum hennar utan klæða er hann sinnti sjúklingnum í sjúkrabifreið á leið á spítala.

Í yfirlýsingu SHS segir að viðkomandi starfsmaður hafi staðfastlega neitað sögk frá því málið kom upp, en atvikið átti sér stað í ágúst í fyrrasumar og greindi konan frá framferði mannsins þegar við komuna á spítala. Í mars 2002 var hann leystur undan starfsskyldum sínum sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður vegna málsins og á grundvelli dómsniðurstöðunnar í gær hefur hann verið leystu alfarið undan starfsskyldum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert