Ingibjörg segist væntanlega hætta störfum 1. febrúar

Ingibjörg Sólrún ræðir við blaðamenn í Ráðhúsinu í kvöld.
Ingibjörg Sólrún ræðir við blaðamenn í Ráðhúsinu í kvöld. mbl.is/Golli

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri segist hafa tilkynnt borgarstjórnarflokki Reykjavíkurlistans að hún segi af sér sem borgarstjóri. Verða teknar upp viðræður við Þórólf Árnason fyrrverandi forstjóra Tals um að hann taki við starfi borgarstjóra. Sagði Ingibjörg Sólrún að hún hefði lagt þessa tillögu fram á fundi oddvita R-listaflokkanna þriggja í dag og niðurstaðan væri fengin í trausti þess að fólkið í R-listanum starfi saman til enda kjörtímabilsins.

"Ég gerði þessa sáttatillögu um að ég stæði úr stóli borgarstjóra í Reykjavík og um með hvaða hætti yrði tryggt að borgin yrði í traustum höndum þegar ég færi frá. Ég gerði hana auðvitað vegna þess að ég taldi mikilvægt að bjarga Reykjavíkurlistanum, að listinn starfaði áfram í borginni. Nú höfum við náð niðurstöðu og það er í trausti þess að þetta fólk sem að Reykjavíkurlistanum stendur starfi áfram á sama grundvelli, sem ákveðið var síðasta vor, fram að lokum kjörtímabilsins."

Var stillt upp við vegg

Ingibjörg kvaðst vera þeirrar skoðunar um að hún hefði staðið andspænis tveimur kostum. "Mér var stillt upp við vegg í þessu máli og varð að velja annan hvorn kostinn. Ég gef ekki eftir þau sjálfsögðu réttindi sem ég hef eins og aðrir til þess að taka sæti á lista og fylgja eftir minni pólitísku sannfæringu og vel þess vegna frekar að standa upp úr stóli borgarstjóra þar sem að mér er þröngur stakkur skorinn."

Ingibjörg kvaðst gera ráð fyrir að ljúka störfum þann 1. febrúar á næsta ári en hyggst sitja áfram sem borgarfulltrúi. Spurð sagði Ingibjörg að það kæmi ekki til greina að hún færi aftur í stól borgarstjóra, það væri útilokað. Hún sagðist hafa tekið fimmta sæti á lista Samfylkingarinnar og mundi snúa sér af fullum krafti að landsmálum. "Ég mun auðvitað starfa áfram í borgarstjórn og mun fara af fullum afli í landsmálum." Spurð hvort að hún væri ekki að taka pólitíska áhættu með því að fara úr stóli borgarstjóra og taka fimmta sæti á lista Samfylkingarinnar í norðurkjördæmi Reykjavíkur sagðist hún hafa alltaf sagt að ef hún ætlaði sér að lifa áhættulausu lífi ætti hún ekki að vera í pólitík.

Viðbrögð flokkana komu á óvart

Spurð um þau viðbrögð sem hún fékk frá samstarfsflokkum innan Reykjavíkurlistans þegar hún tilkynnti að hún færi í framboð til Alþingiskosninga sagðist hún játa að það væru til staðar ákveðin særindi yfir þeim eftir öll þau ár sem hún hefði starfað í borgarstjórn Reykjavíkur. "Ég taldi mig hafa sömu mannréttindi og annað fólk, enda var aldrei eftir því kallað og hvergi skrifað í okkar samstarfsyfirlýsingu að ég frekar en aðrir borgarfulltrúar gætu ekki skipt okkur að landsmálunum. Mér finnst þetta með miklum ólíkindum í ljósi þess að ég var að bjóða mig fram í fimmta sæti, sem er varaþingmannssæti eins og staðan er í dag. Hins vegar hafa menn í umræðunni gert það að þingsæti og kannski leiðtogasæti í landsmálunum. Það er því búið að taka þessa umræðu úr öllum eðlilegu samhengi."

Spurð hvort að viðbrögð samstarfsflokkanna hefðu komið sér á óvart sagðist hún játa það. "Það er með talsverðum ólíkindum hve mikið fjaðrafok er búið að vera í kringum þetta." Spurð hvort að formenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna hefðu leikið þar ákveðið hlutverk sagði Ingibjörg að pólitísku flokkarnir, ekki bara baklandið í Reykjavíkurlistanum, væru búnir að vera í lykilhlutverki. "Ég hef alltaf lagt áherslu á að Reykjavíkurlistinn væri annars vegar kosningabandalag þessara þriggja flokka. Jafnframt væri mikilvægt að þar væri óflokksbundið fólk sem er áhugafólk um borgarmálefni og vill sinni borg vel. Ég lagði áherslu á það í kosningunum í vor að slíkt fólk kæmi inn á listann," sagði Ingibjörg og benti á Dag B. Eggertsson og Jónu Hrönn Bolladóttur. "Það sýndist sitt hverjum í vor en ég lagði á það mikið kapp og þegar því var andmælt gerði ég grein fyrir því að flokkarnir gætu fundið sér annan borgarstjóra." Ingibjörg sagði að mönnum hefði ekki fundist það góður kostur. "Á þessum tíma var aldrei um það rætt við mig, hvorki formlega né óformlega, að ég skipti mér ekki af landsmálum eða tæki ekki sæti á lista."

Kveðst ekki láta beygja sig

Ingibjörg sagðist hafa fylgt eftir sinni sannfæringu síðustu daga, gert það sem henni hefði fundist rétt við þessar aðstæður. "Það ætla ég að gera hér eftir sem hingað til. Ég læt ekki beygja mig því ef maður lætur einu sinni kúga sig er sú hætta alltaf fyrir hendi að það verði gert aftur," sagði Ingibjörg sem kveðst vera bjarga R-listanum með ákvörðun sinni. "Sjálfstæðisflokkurinn var í sögulegu lágmarki hér í borginni í síðustu kosningum og ég mun aldrei láta það gerast, ef ég hef einhver tök á því að koma í veg fyrir það, að hann setjist hér aftur í valdastól."

Spurð hversu nálægt Sjálfstæðisflokkurinn var að setjast í valdastól aftur sagðist Ingibjörg hafa spurt sig sérstaklega að því í gær, þegar hún var að gera þetta mál upp við sig, hvort að það væri svo að hún stæði frammi fyrir því að segja starfi sínu lausu sem borgarstjóri eða hætta við þingframboð og ef hún gerði ekki annað tveggja þá færu framsóknarmenn í samstarf með sjálfstæðismönnum. "Ég spurði mig að þessari spurningu því ég vildi fullvissa mig um að það væri raunhæfur möguleiki að Framsóknarflokkurinn færi í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum og ég gat ekki skilið það öðru vísi en svo en að það hefði geta verið yfirvofandi," sagði Ingibjörg sem kveðst vilja leggja sitt af mörkum til þess að koma í veg fyrir það.

Hún sagði jafnframt að hún gæti ekki staðið við þá skuldbindingu um að hún gegndi stöðu borgarstjóra út kjörtímabilið við þær aðstæður sem hér hefðu skapast og í ljósi þeirrar atburðarásar sem hér hefði orðið. "Ég hygg reyndar ef horft er til kjósenda í Reykjavík og almennings í borginni að hann hefði ekki brugðist illa við því að ég skipti mér af landsmálum með einhverjum hætti. Hann hefði fyllilega sætt sig við það að ég skipti mér af landsmálunum en væri áfram borgarstjóri í Reykjavík, enda er trúnaður minn við Reykjavíkurlistann enn órofinn og stendur enn og ég treysti mér til þess að gæta hagsmuna Reykjavíkurlistans og Reykvíkinga í hvívetna."

Borgarfulltrúar R-listans í Ráðhúsi Reykjavíkur í kvöld eftir að samkomulag …
Borgarfulltrúar R-listans í Ráðhúsi Reykjavíkur í kvöld eftir að samkomulag hafði náðst um áframhaldandi samstarf. mbl.is/Golli
Árni Þór Sigurðsson ræðir við blaðamenn í Ráðhúsinu í dag.
Árni Þór Sigurðsson ræðir við blaðamenn í Ráðhúsinu í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka