Tveir bátar halda á hrefnuveiðar

Hrefnubáturinn Sigurbjörg BA 155, sem hélt til veiða í gærkvöldi.
Hrefnubáturinn Sigurbjörg BA 155, sem hélt til veiða í gærkvöldi. mbl.is/Hafþór

Hvalveiðibáturinn Njörður lagði af stað frá Kópavogshöfn á fjórða tímanum í dag, en Njörður er annar tveggja báta sem taka þátt í vísindaveiðum á hrefnu í ágúst og september. Tveir bátar fylgja Nirði eftir, Elding II og Gestur. Guðmundur Haraldsson, skipstjóri á Nirði, sagði að hópur frá AP-fréttastofunni væri um borð í Eldingu II en vissi ekki hverjir væru um borð í Gesti. Hann sagði ekki hægt að hrista skipin af sér þar sem þau væru stærri og aflmeiri en Njörður. “Við verðum bara að una því meðan þeir elta okkur.”

Spurður sagði Guðmundur að fólkið um borð í skipunum tveimur vissi af því að mælst væri til þess að það héldi sig í einnar sjómílu fjarlægð ef það yrði vitni af veiðum. “Okkur er hins vegar sagt að láta ekki ná myndum af okkur þegar við veiðum, hvort sem það er míla eða hálfmíla. Við vitum heldur ekki hvort þeir hlíta þessum tilmælum. Við ætlum því ekkert að gera meðan þeir eru yfir okkur, en stefnum eitthvað út í Faxaflóa.” Guðmundur sagði ekki ljóst hvenær haldið yrði til baka.

Hvalveiðibáturinn Sigurbjörg lagði úr höfn í gærkvöldi, en báðir bátanir hafa orðið varir við hrefnu. Skipið Halldór Sigurðsson frá Ísafirði hyggst einnig halda til hrefnuveiða. Um borð í Halldóri Sigurðssyni fengust þær upplýsingar að beðið væri eftir veðurspánni, en hugsanlega yrði lagt af stað í kvöld. Stefnt er að því að veiða 38 hrefnur í ágúst og september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert