Maður fórst í snjóflóði sem féll á bæinn Bakka í Ólafsfirði

Björgunarsveitir frá Akureyri og Dalvík áttu í erfiðleikum með að …
Björgunarsveitir frá Akureyri og Dalvík áttu í erfiðleikum með að komasst til Ólafsfjarðar vegna ófærðar, en þessi mynd var tekin á Dalvík í gær. mbl.is/Haukur Gunnarsson

Maður, sem var á fimmtugsaldri, fannst látinn í morgun eftir að snjóflóð féll á bæinn Bakka innst í Ólafsfirði í gær. Hann var úrskurðaður látinn af lækni á vettvangi upp úr klukkan fimm í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum ríkisins er aðgerðum á vettvangi lokið og eru þeir aðilar, sem þar störfuðu eða voru á leið þangað, nú á leið til síns heima. Lögreglumaður og björgunarsveitarmenn frá Ólafsfirði fóru að bænum í gærkvöldi til að athuga með íbúann þar. Þeir komu að bænum um klukkan tíu og þá var ljóst að snjóflóð hafði fallið á bæinn og hófst þá þegar útboðun björgunarliðs í Ólafsfirði í Eyjafirði og Skagafirði.

Á fimmta tímanum í morgun komu fyrstu hópar björgunarsveitarmanna á staðinn og hófu leit, en bærinn Bakki og er um 15 km innan við Ólafsfjörð. Sett var upp vettvangsstjórnstöð við bæinn Vermundarstaði og var leit á vettvangi stjórnað þaðan. Að aðgerðinni koma 117 björgunarsveitarmenn, 4 leitarhundar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, ásamt lögreglumönnum, vegagerðarmönnum og almannavarnanefnd Ólafsfjarðar.

Snjóflóðið var stórt, um 300 til 350 metrar á breidd. Flóðið tók íbúðarhúsið af grunninum og stöðvaðist 100 metrum neðar við fjárhús sem þar stendur.

mbl.is