Norðmenn eiga best með að skilja tungumál nágranna sinna

Norðmenn eiga best með að skilja norrænt tungumál nágranna sinna því þeir eru vanir mismunandi mállýskum. Ungir Danir eiga aftur á móti erfitt með að skilja sænsku og norsku og þeir standa sig verst í Skandinavíu í því að skilja nágranna sína.

Þetta kemur fram í tveimur stórum norrænum tungumálarannsóknum, að því er fram kemur á vefsetri Norðurlandaráðs á netinu.

Í annarri rannsókninni tóku þátt nær tvö þúsund framhaldsskólanemar á Norðurlöndum og foreldrar þeirra. Þetta var stærsta rannsókn sem gerð hefur verið til að kanna skilning Norðurlandabúa á norrænu tungumálunum þremur, dönsku, norsku og sænsku.

Niðurstöðurnar sýna að dönskum unglingum gengur ekki eins vel að skilja önnur skandinavísk tungumál og öðrum norrænum unglingum.

Í hinni stóru rannsókninni, er fjallað um notkun nútíma erlendra tökuorða og hvaða áhrif þau hafa á norræn tungumál. Í rannsókninni var sýnt fram á, að fyrst og fremst ensk tökuorð, verða stöðugt algengari og að Danir taka helst upp erlend tökuorð.

Íslendingar og Norðmenn eru mestu andstæðingar tökuorða. Árið 1975 var um hálft prósent dagblaðatexta í Skandinavíu tökuorð, nú eru þau um 1,2 prósent af textanum.

Verkefnið norrænn tungumálaskilningur er unnið að frumkvæði Norræna menningarsjóðsins sem einnig fjármagnar verkefnið. Verkefnið nútíma tökuorð í norrænu tungumálunum er unnið að frumkvæði norræna tungumálaráðsins og fjármagnað meðal annars af fjárveitingum þess. Norræna tungumálaráðið stýrir báðum verkefnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert