Mikil notkun ofvirknislyfs hér á landi

Umtalsverð aukning hefur orðið á notkun lyfsins methylphenidats við athyglisbresti með ofvirkni á undanförnum árum og enn meiri aukning á kostnaði. Fram kemur í skriflegu svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðisráðherra, á Alþingi að samkvæmt upplýsingum frá Eftirlitsstofnun Sameinuðu þjóðanna með ávana- og fíkniefnum hafi notkun lyfsins hvergi verið meiri en á Íslandi árið 2003.

Það ár mældist notkunin 5,27 skilgreindir dagskammtar á 1000 íbúa og hafði þá aukist gríðarlega frá árinu 1999 þegar notkunin mældist 1,21 skilgreindir dagskammtar.

Í svarinu, sem er við fyrirspurn frá Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, er tekið undir áhyggjur hennar af aukningu þessara lyfja á undanförnum, en í fyrirspurninni er m.a. spurt hvort ráðherra telji eðlilegt að á annað þúsund barna á aldrinum 1–14 ára, þ.e. um 2% barna á þeim aldri, taki þessi lyf að staðaldri. Heilbrigðisráðherra mun óska eftir því við landlækni og Miðstöð heilsuverndar barna, að skoða á breiðari grundvelli í samráði við sálfræðiþjónustu skóla og félagsþjónustu sveitarfélaga hvernig best verði brugðist við þeirri miklu aukningu á athyglisbresti og ofvirkni barna sem hér virðist hafa átt sér stað að undanförnu.

Þá mun ráðherra einnig beina því til landlæknis og Lyfjastofnunar að kanna sérstaklega hvort eitthvað óeðlilegt sé á seyði varðandi kynningar, ávísanir og notkun methylphenidats. Notkunin borin saman við notkun annarra þjóða veki áleitnar spurningar sem verði að svara.

Kostnaður hefur aukist mikið
hefur kostnaður á undanförnum árum vaxið umtalsvert umfram það sem notkunin segir til um. Ástæðan er rakin til þess að á miðju ári 2003 kom á markaðinn nýtt langvirkt form methylphenidats sem var mun dýrara en það sem fyrir var en notkunin færðist að mestu yfir á það form, auk þess sem hún jókst til muna.

Fram kemur að langvirk methylphenydatlyf, svo sem Ritalín Uno og Concerta, séu talin hafa ótvíræða kosti umfram Ritalín, annars vegar vegna þess að þau lyf þarf ekki að taka nema einu sinni á dag og hins vegar vegna þess að talið er að það sé mun erfiðara að misnota þau, þar sem um forðatöflur er að ræða. Fíklar sækjast því mun síður í nýju lyfin.

Í svarinu segir, að áður hafi kennarar oft kvartað yfir því að börnin tækju með sér lyf í skólann, en þess sé ekki talin þörf lengur með hinum nýju forðalyfjum. Þetta kunni að hafa valdið einhverri aukningu á heildarnotkun af methylphenydati, auk þess sem ótti lækna við að einhver í umhverfi barnsins kynni að misnota lyfið hafi e.t.v. minnkað við þetta.

Svar ráðherra í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert