Sendu ríkisstjóra Texas erindi vegna máls íslensks drengs

Hópurinn sem beitir sér fyrir því að íslenski drengurinn Aron Pálmi Ágústsson fái sem fyrst frelsi og heimfararleyfi til Íslands hefur ritað Rick Perry, ríkisstjóra í Texas sérstakt erindi þar um á mjúkum nótum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Þar segir að bréfinu fylgi bænarbréf frá Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands þar sem fram komi að velferð og frelsi Arons Pálma hafi verið sameiginlegt bænarefni í öllum kirkjum landsins sl. sunnudag og verði svo áfram uns hann hefur verið látinn laus. Þá verði og beðið fyrir þeim í Texas sem hafa örlög hans í hendi sér.

„Bréfið var sent í TNT-hraðpósti í dag og afrit til utanríkisráðuneytisins, Sendiráðs Íslands í Washington og bandaríska sendiráðsins í Reykjavík. Þá fór Valgerður Hermannsdóttir, móðursystir Arons Pálma utan í dag, og mun dvelja hjá honum í nokkrar vikur. Hún hafði með sé afrit af þessum skjölum fyrir fangelsisyfirvöld í Texas,“ segir í tilkynningu stuðningshópsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert