Stofnfundur Lögreglustjórafélags Íslands haldinn á Hvolsvelli

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ásamt lögreglustjórunum.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ásamt lögreglustjórunum.

Í dag var haldinn á Hvolsvelli stofnfundur Lögreglustjórafélags Íslands. Félagið er stofnað vegna fyrirhugaðra breytinga á skipulagi lögreglunnar og eru félagar allir lögreglustjórar og aðstoðarlögreglustjórar sem sinna mun þeim störfum eftir 1. janúar 2007.

Tilgangur félagsins er að vera vettvangur félagslegrar umræðu um málefni lögreglunnar þ.m.t að stuðla að bættu starfsumhverfi lögreglunnar, vera ráðgefandi og hafa frumkvæði gagnvart ríkisstjórn og Alþingi um nýmæli í löggjöf sem vænta má að snerti verksvið félagsmanna eða þegar óskað er eftir áliti félagsins, stuðla að samræmi í lagaframkvæmd og embættisfærslu félagsmanna og annast fyrirsvar fyrir félagsmenn í kjaramálum.

Stjórn félagsins skipa eftirtaldir lögreglustjórar: Kjartan Þorkelsson Hvolsvelli formaður, Stefán Eiríksson Höfuðborgarsvæðinu, Sigríður B. Guðjónsdóttir Ísafirði, Ólafur K. Ólafsson Stykkishólmi og Lárus Bjarnason Seyðisfirði. Dómsmálaráðherra Björn Bjarnason heiðraði fundinn með nærveru sinni og flutti ávarp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert