Steinunn Þóra Árnadóttir gefur kost á sér í forvali VG

Steinunn Þóra Árnadóttir
Steinunn Þóra Árnadóttir

Steinunn Þóra Árnadóttir hefur gefið kost á sér í 4. sæti í sameiginlegu forvali Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fyrir Suðvestur- og Reykjavíkurkjördæmin. í tilkynningu hennar kemur fram að með því vilji hún leggja sitt af mörkum til þess aðforvalið verði sem öflugast og skili sterkum framboðslistum fyrir kosningarnar í vor.

Í yfirlýsingu hennar segir:

Eftir sextán ára samfellda valdatíð íhaldsaflanna í landinu er nauðsynlegt að vinstrimenn taki við stjórn landsins. Síðustu ár hafa einkennst af vaxandi misskiptingu í samfélaginu og grafið hefur verið undan stoðum velferðarkerfisins. Það er afar brýnt að endurskoða frá grunni almannatryggingakerfið sem heldur nú fjölda fólks í fátæktargildru. Núverandi ríkisstjórn hefur með blindum stuðningi við bandarísk stjórnvöld stutt með beinum hætti við stríðsaðgerðir víða um lönd. Það er löngu tímabært að Íslendingar myndi sér sjálfstæða utanríkisstefnu og gerist málsvari friðar í heiminum. Ísland á að segja sig úr NATO og hafna öllu hernaðarsamstarfi við önnur ríki. Til að svo megi verða er ljóst að Vinstrihreyfingin – grænt framboð verður að ná góðum árangri í komandi kosningum.

Upplýsingar um frambjóðandann:

Steinunn Þóra er fædd í Neskaupstað árið 1977. Hún er öryrki og stundar MA-nám í mannfræði við Háskóla Íslands. Steinunn sat í stjórn Reykjavíkurfélags Vinstri grænna 2003 til 2005. Hún hefur starfað að friðar- og afvopnunarmálum og sat m.a. í nokkur ár í miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga. Þá hefur hún gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir MS-félag Íslands og Öryrkjabandalagið, þar sem hún situr nú í framkvæmdastjórn.
Sambýlismaður Steinunnar er Stefán Pálsson sagnfræðingur og eiga þau eins árs gamla dóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert