Rann fjörutíu til fimmtíu metra niður stífluvegginn

eftir Andra Karl

andri@mbl.is

KÍNVERSKUM starfsmanni Impregilo er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítala - háskólasjúkrahúss eftir alvarlegt vinnuslys við Kárahnjúkastíflu á sjöunda tímanum sl. laugardagskvöld. Hann rann um fjörutíu til fimmtíu metra niður stífluvegginn og hafnaði á steypustyrktarjárnum.

Maðurinn sem er um fertugt var við störf uppi á Kárahnjúkastíflu þegar slysið varð. Hann var að stýra bómu með kaðli en af einhverjum orsökum tókst honum ekki að sleppa kaðlinum, dróst með honum út á stífluvegginn, vatnsmegin, og rann niður. Afleiðingarnar urðu m.a. að nokkur rifbein brotnuðu, annað lungað féll saman auk þess maðurinn skarst víða og missti mikið blóð. Læknar í sjúkraskýlinu við Kárahnjúka hlúðu að manninum áður en sjúkrabíll flutti hann til Egilsstaða. Í kjölfarið kom þangað flugvél frá Akureyri með lækni innanborðs og maðurinn var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Hann gekkst undir aðgerð í gærdag og er ástand hans stöðugt, að sögn sérfræðings á gjörgæsludeild LSH í Fossvogi.

Banaslys á laugardagsmorgun

Á laugardagsmorgun lést 39 ára króatískur starfsmaður undirverktaka á vegum Landsnets, Kresimir Durinic, á Fljótdalsheiði þar sem unnið var við að leggja byggðalínuna, Kröflulínu, að tengivirki í Fljótsdal.

Verið var að hengja háspennulínur á möstur þegar rúmlega 150 kg einangrunarkeðja féll til jarðar úr um fimmtán til tuttugu metra hæð. Maðurinn reyndi að koma sér undan keðjunni en skrikaði fótur vegna hálku og féll við. Hann var úrskurðaður látinn við komuna á sjúkrahús. Durinic var ógiftur og barnlaus.

Í hnotskurn
» Óljóst er hvers vegna kínverskur starfsmaður Impregilo dróst með kaðli að stífluveggnum á laugardagskvöld. Rannsókn stendur yfir.
» Maðurinn gekkst undir aðgerð í gær og er ástand hans alvarlegt en stöðugt.
» Tæplega fertugur starfsmaður lést í vinnuslysi á Fljótsdalsheiði á laugardagsmorgun.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert