Síminn eflir GSM samband sitt á Norðurlandi

Síminn hefur stórlega eflt GSM samband fyrir viðskiptavini sína á Norðurlandi með uppsetningu á fjórum sendum. Eftir breytinguna verður samfellt samband frá Víkurskarði til Húsavíkur en nýr sendir við Háls í Köldukinn bætir samband á um 10 km vegkafla, að því er segir í tilkynningu frá Símanum.

Einnig setti Síminn upp nýjan sendi á Sauðárkróki sem bætir samband við höfnina og í nágrenni hennar. Auk þess hefur Síminn sett upp tvo senda í Öxnadal og verða þeir gangsettir á næstunni. Með því bætist við GSM samband á um 20 km vegkafla á þjóðvegi 1.

Auk eflingar á Norðurlandi hefur Síminn bætt GSM samband verulega bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu með yfir 40 nýjum sendum víðs vegar um landið. Helsti styrkur Símans liggur í traustu dreifikerfi sem nær til 98% landsmanna. Þar sem GSM-dreifikerfinu er ekki til að dreifa tekur NMT-farsímakerfið við. Uppbygging GSM-kerfisins er stöðug og sífellt er verið að þétta það og bæta. Þá má nefna að gagnaflutningsþjónusta Símans nær einnig til 98% landsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina