Akureyri, Árborg og Ísafjörður öflugar landshlutamiðstöðvar

Ísafjörður er sterk landshlutamiðstöð.
Ísafjörður er sterk landshlutamiðstöð.

Akureyri, Árborg og Ísafjörður koma sterkt út sem landshlutamiðstöðvar. Egilsstaðir komu þokkalega út en Borgarnes síst. Byggðir austan Akureyrar sækja frekar þangað eftir sérhæfðri þjónustu en til Reykjavíkur. Norðurland vestra, sunnanverða Vestfirði og Suðausturland vantar sterkar héraðsmiðstöðvar.

Þetta kemur m.a. fram í könnun á ferðavenjum, sem gerð var í mars fyrir samgönguráðuneytið. Í könnuninni kom einnig fram, að íbúar á þeim svæðum, þar sem ekki er lágvöruverslun, fara oftar til Reykjavíkur að versla en ætla mætti eftir fjarlægð staðanna frá borginni. Sama á við um læknisþjónustu, þar sem ekki eru stór sjúkrahús í héraði. Þar fer hlutfallslega hátt hlutfall íbúa til Reykjavíkur til að sækja læknisþjónustu.

Hlutfall þeirra sem vinna utan búsetusvæðis fer vaxandi, sérstaklega í byggðarlögum nærri höfuðborgarsvæðinu. Í könnuninni í mars sögðust 14% svarenda vinna utan búsetusvæðis en í samsvarandi könnun á síðasta ári var þetta hlutafll 9%. Tíðni ferða út fyrir sveitarfélag fer einnig hraðvaxandi. Á þriggja mánaða tímabili desember 2005 til febrúarloka 2006 voru farnar 17 ferðir að meðaltali út fyrir búsetusvæði en 13 ferðir 2004-2005.

Algengustu erindi út fyrir byggðarlag eru: Heimsóknir til vina og ættingja 52% svara, verslun 31%, ferðir vegna vinnu 27% og læknisheimsóknir 11%. Ferðir til Reykjavíkur vegna vinnu og viðskipta eru hlutfallslega mun tíðaðari hjá flugfarþegum 54%, en þeirra sem ferðast með ökutæki 19%.

Tíðni ferða til Reykjavíkur minnkar hratt með aukinni fjarlægð, sérstaklega eftir að komið er í yfir 100 km fjarlægð frá borginni. Svarendur í Árborg fóru 24 sinnum á þriggja mánaða tímabili til borgarinnar, svarendur í Borgarfirði 10 sinnum og í Dalasýslu 5 sinnum.

Spurt var um ferðamáta í könnuninni. Þar kom m.a. fram, að um 86% Vestmannaeyinga sögðust yfirleitt nota Herjólf þegar þeir færu til lands. Um 47% Vestmannaeyinga leist best á ferju til nýrrar hafnar við Bakka sem framtíðarkost í samgöngumálum, 29% vildu hraðskreiðari ferju til Þorlákshafnar, 8% bætta flugþjónustu til Reykjavíkur, 1% nefndu flug til Bakka og 15% vildu aðra kosti þ.e. jarðgöng.

Könnunin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert