Réðst á leigubílstjóra sem neitaði að lækka í útvarpinu

Kona um fimmtugt var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmd til að greiða 180 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs og leigubílstjóra 100 þúsund krónur í miskabætur auk vaxta fyrir að hafa klórað leigubílstjórann í andlitið og rispað. Ástæða árásarinnar er sú að leigubílstjórinn neitaði að lækka í útvarpinu.

Aðfaranótt miðvikudagsins 22. mars 2006 var lögreglan kvödd til leigubifreiðastjóra sem hafði ekið konu og karlmanni. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hefðu þau greitt fyrir aksturinn en konan viljað að leigubílstjórinn lækkaði í útvarpinu. Hún hefði ekki tekið undir beiðni konunnar þar sem þau hefðu greitt fyrir bifreiðina og væru ekki farþegar lengur, og beðið þau um að stíga út úr bifreiðinni. Konan hefði þá brugðist ókvæða við og rifið í hár hennar og klórað hana í andlitið.

Konan neitaði sök við yfirheyrslur og í dómi. Hún sagði að upp hafi komið ágreiningur vegna þess að leigubílstjórinn hafi ekki lækkað í útvarpinu eins og hún hefði óskað eftir, heldur hækkað í því. Hafi henni fundist framkoma bílstjórans ögrandi. Konan viðurkenndi að hafa hnippt í öxl bílstjórans og hugsanlega þá rifið í hár hennar.

Samkvæmt sakavottorði konunnar hefur hún frá árinu 1995 fimm sinnum hlotið refsingu fyrir umferðarlagabrot. Síðast 4. september 2006 er hún gekkst undir sektargreiðslu fyrir ölvunarakstur og sviptingu ökuréttar, að því er segir í dómi héraðsdóms.

„Við refsiákvörðun er til þess að líta að ákærða hefur ekki gerst sek um refsiverða háttsemi sem hér skiptir máli. Þá eru áverkar þeir sem brotaþoli hlaut minniháttar. Þótt það kunni að vera að leigubílstjórinn hafi ekki orðið við tilmælum um að lækka tónlist þykir það á engan hátt réttlæta háttsemi ákærðu. Var háttsemi hennar ámælisverð. Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin 180.000 kr. sekt í ríkissjóð, en vararefsing skal vera fangelsi í 14 daga," samkvæmt héraðsdómi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert