Málningu hellt á skrifstofur Athygli

Valþór Hlöðversson, framkvæmdastjóri Athygli.
Valþór Hlöðversson, framkvæmdastjóri Athygli. mbl.is/Sverrir

Málningarslettur og veggjakrot tóku á móti framkvæmdastjóra almannatengslaskrifstofunnar Athygli er hann mætti til vinnu í morgun, en óprúttnir aðilar höfðu tekið sig til í skjóli nætur og hellt málningu á skrifstofuhúsnæðið. Þá hafði verið skrifað stórum stöfum „Iceland is bleeding“, eða Íslandi blæðir, og leikur grunur á að aðgerðarsinnar úr röðum Saving Iceland eigi hlut að máli. Málið hefur verið kært til lögreglu.

Valþór Hlöðversson, framkvæmdastjóri Athygli, sagði í samtali við mbl.is að málningardósir liggi út um allt og að búið sé að sletta á alla veggi og skilti fyrirtækisins.

Hann segist ekki vita með vissu hver eða hverjir standi á bak við skemmdarverkin en hann grunar að liðsmenn Saving Iceland eigi hlut í máli. Hann segir Athygli vera á meðal fyrirtækja sem hafa verið sett á það sem hann kallar „dauðalista“ sem sé að finna inn á vefsíðu Saving Iceland, þ.e. savingiceland.org. Fyrirtækin sem eru á þessum lista eiga það sameiginlegt að hafa unnið fyrir Landsvirkjun.

Valþór segir að handbragðið minni um margt á skemmdarverk liðsmanna Saving Iceland í Edinborg í Skotlandi, en í gær helltu þeir málningu á byggingu sem hýsir meðal annars ræðisskrifstofu Íslands í borginni.

Hann segir mikla vinnu framundan við að þrífa sletturnar.

Aðspurður um hvað honum þyki um athæfið segir Valþór: „Mér finnst þetta alveg yfirmáta heimskulegt.“

Lögreglumenn sjást hér á vettvangi í morgun.
Lögreglumenn sjást hér á vettvangi í morgun. mynd/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert