Borgarstjóri: Mín vegna má setja kælinn upp aftur

Það væri Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarstjóra að meinalausu að umdeildur vínkælir í ÁTVR við Austurstræti í Reykjavík yrði settur upp aftur, en kælirinn var fjarlægður að beiðni borgarstjórans fyrir nokkru. Borgarstjóri segir kælinn algjört aukaatriði.

Eitt af því sem til greina hafi þótt koma í því augnamiði að bæta miðborgina hafi verið að fá vínbúðina í Austurstræti til að hætta að selja bjór í stykkjatali.

Vilhjálmur segir að sér lítist vel á þær hugmyndir sem Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, setti fram í gær á fundi lögreglunnar með borgaryfirvöldum og veitingamönnum í miðborginni. Það sé góð samstaða með þessum aðilum, og það sé afar mikilvægt til að hægt sé að ná þeim árangri sem vonast sé eftir.

Vilhjálmur segist leggja mikla áherslu á að ekki verði eingöngu hugað að því ófremdarástandi er ríki í miðborginni á nóttunni um helgar heldur einnig hugað að stöðu mála á daginn í miðri viku.

Ástandið á sumum stöðum, eins og til dæmis í Austurstræti og á ákveðnum stöðum við Laugaveginn, sé alsendis óviðunandi. Hvorki borgaryfirvöld né lögregla geti horft framhjá ástandinu og sagt að svona sé þetta bara.

Áreitið sem vegfarendur verði á stundum fyrir í Austurstræti - einkum þegar veður sé gott - af hálfu ölvaðs ógæfufólks sé slíkt að ekki verði við það unað.

„Við eigum að beita öllum ráðum til að tryggja að fólk geti farið óhult um þessa götu í hjarta miðborgarinnar,“ sagði Vilhjálmur. Einnig séu borgaryfirvöld að leita úrræða fyrir þá ólánsömu einstaklinga sem um er að ræða, „til að þeir fái meiri umönnun og hlýju en þeir njóta í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert