Unnið að gerð ógnarmats fyrir Ísland

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. mbl.is/RAX

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefur undirbúið gerð faglegs ógnarmats fyrir Ísland. Ingibjörg Sólrún sagði, þegar hún ávarpaði ráðstefnu um auðlindir á norðurslóðum í dag, að slíkt mat hefði skort en það væri löngu tímabært og allar áætlanir um viðbúnað væru ófullnægjandi án slíkrar undirstöðu.

Ingibjörg Sólrún sagði ljóst, að í íslenskri stjórnskipun þurfi að útfæra lýðræðislegri vinnubrögð en hingað til hafi tíðkast þegar komi að þjóðaröryggi og skilgreina betur þau mörk sem alltaf hljóti að vera milli þess sem lúti almennri upplýsingaskyldu og hins sem sérstakur trúnaður verði að ríkja um.

„Almennt má segja að umræðuna þurfi að efla og skapa einingu og sátt um grundvallaratriði. Slík sátt er í meginatriðum fyrir hendi í nágrannaríkjum okkar og það er engin ástæða til þess fyrir Íslendinga að viðhalda átakahefð í eigin mati á vörnum og þjóðaröryggi: Varnir eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, mikilvægt er að þær séu ekki undirorpnar pólitískum sviptivindum á heimavelli heldur byggðar á ígrunduðu mati á þeim váboðum sem þjóðin stendur andspænis á hverjum tíma. Um þetta eigum við að ná sáttum," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði, að nauðsynlegt væri að gera skýran greinarmun á innra öryggi í íslensku samfélagi og ytra þjóðaröryggi og samstarfi Íslands við aðrar þjóðir á því sviði. Þá sagði hún að Ísland muni aldrei taka að sér að gegna hlutverki í sambandi við svokallaðar „harðar” varnir og ekki stæði til að stofna íslenskt varnarlið, eða her. Hlutverk Íslands verði hins vegar þeim mun meira áberandi á grunni „mýkri” varna þar sem utanríkisþjónustan gegni lykilhlutverki og starf á sviði friðargæslu og þróunaraðstoðar væri í öndvegi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert