Allsherjarsamráð

Í umræðum undanfarna daga um verðsamráð á matvörumarkaðinum hefur mikið borið á að fólk sem starfað hefur í þessari grein hefur komið fram með upplýsingar en óskað nafnleyndar. Meginregla Morgunblaðsins hefur verið að birta ekki nafnlaus bréf nema eftir að hafa fengið vitneskju um hver bréfritari er. Í þessu tilfelli þykir hins vegar ástæða til að gera undantekningu – í ljósi almannahagsmuna enda fer vart milli mála að bréfritari hefur víðtæka reynslu og þekkingu á hvernig hagar til að á matvörumarkaðinum. Bréfið sem barst í tölvupósti frá einhverjum sem kýs að kalla sig Jón Jónsson:

„Sem fyrrum starfsmaður Baugsfyrirtækis finn ég mig knúinn til að koma eftirfarandi á framfæri, þótt ég kjósi að gera það ekki undir nafni:

– Ég tek það fram að ég var virkur aðili í því sem fram kemur hér að neðan og hef þetta því frá fyrstu hendi. Ég vil einnig taka það fram að ég er ekki að reyna að koma höggi á fyrirtækið, ég ber ekki illan hug til neins þar. Mér finnst það hins vegar skylda mín í ljósi umræðunnar nú og þess sem var í kjölfar olíumálsins að þetta komi fram.

– Við gerðum daglega verðkannanir hjá öllum helstu samkeppnisaðilunum. Þegar vöruverð var óeðlilega lágt í einhverri verslun samkeppnisaðila þá var ákveðið ferli sem oft fór af stað. Þá var hringt í viðkomandi birgi og hann beðinn um að þetta yrði lagað. Birgjar komu þá oftast með tillögu að verði sem borin var undir allar keðjurnar á markaðnum og ef allir samþykktu að hækka verðið skv. þeirri tillögu þá var það gert á ákveðnum tímapunkti í öllum verslunum á landinu. Birgjarnir fóru þá eftir ákveðinni forskrift að verðmun sem átti að vera milli verslana á markaðnum. Þessi forskrift var þannig að Bónus ætti að vera með lægsta verðið, næsta keðja x% hærri og svo koll af kolli. Ef það var hins vegar bara ein keðja sem var að „skemma" verðið þá hringdi birgirinn oft bara beint í viðkomandi keðju. Það kom líka fyrir að við fórum ekki í gegnum birginn, heldur töluðum beint við viðkomandi keðju.

– Það er vitanlega hagur birgjanna að tryggja að verð sé nógu hátt í öllum verslunum til að verslanir sjái sér hag í að selja vöruna og framstilla henni vel. Þeir voru því oftast fljótir til þegar kvartað var yfir of lágu verði í einhverri verslun þar sem vitað var að ef ekkert yrði gert til að hækka verðið mundi verðið almennt lækka á markaðnum, í öllum verslunum. Í framhaldi af því yrði pláss vörunnar minnkað, þ.a. salan yrði ekki mikil.

– Verð á ákveðnum vöruflokkum var "tekið í gegn" reglulega, t.d. var verð á árstíðabundnum vörum eins og bökunarvörum lagað fyrir aðalbökunarvertíðina fyrir jólin. Þá voru birgjar í aðalhlutverki, settu upp verðskrá fyrir allar vörurnar þar sem fram kom hvað verðið ætti að vera í hverri verslun/keðju. Ef allar keðjurnar samþykktu breytingarnar var valinn tími þegar allar verðbreytingarnar ættu að vera komnar í gegn alls staðar. Svo könnuðu menn verðið eftir þann tíma til að tryggja að allt hefði gengið eftir og yfirleitt gekk það vel.

– Fyrirtækið var oft á tíðum með svokallaðar „verðkönnunarvörur" á boðstólum sem dregnar voru fram þegar utanaðkomandi verðkönnun stóð yfir, þ.e. verðkönnun fjölmiðla, ASÍ eða Neytendasamtakanna, eða þegar líklegt þótti að slík verðkönnun yrði gerð. Yfirleitt var verið að borga með þessum vörum þ.a. það var ekki ætlunin að selja þessar vörur í einhverju magni og oft var salan 0 svo dögum skipti þó svo að varan „væri til".

– Oft spurðist það út fyrirfram ef gera átti verðkönnun, sérstaklega þegar ASÍ eða Neytendasamtökin voru á ferð. Stundum voru þessar ábendingar ekki réttar, en oft var vitað af verðkönnununum fyrirfram.

– Flestar þessar verðkannanir innihéldu sömu vörurnar mánuð eftir mánuð. Það var því ekki erfitt að tryggja að útkoma úr verðkönnun yrði góð með því að hafa verðið á þessum fáu vörum lágt en annað verð hátt eða með betri álagningu.

– Flestar verðkannanir voru gerðar í miðri viku, þri.-fim. Menn voru því meira á tánum þessa daga og oft voru helgarnar notaðar til að hækka verð. Oft fylgdu aðrar keðjur þeim hækkunum þ.a. eftir helgina var komið jafnvægi á markaðnum með nýju, háu verði. Ef ekki, þá var verðið einfaldlega aftur lækkað á mánudegi til að tryggja að það myndi ekki koma svona út í verðkönnun."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert