Ísland axli ábyrgð á eigin öryggi

AWACS ratsjárflugvél á varnaræfingu hér á landi á síðasta ári.
AWACS ratsjárflugvél á varnaræfingu hér á landi á síðasta ári.

„Sá tími er liðinn, að Ísland þurfi engum peningum að verja til varna sinna og sá tími er kominn, að Ísland axli sjálft ábyrgð á eigin öryggi," sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, þegar hún mælti fyrir frumvarpi um varnarmál á Alþingi í dag.

Ingibjörg Sólrún sagði að frumvarpið væri sögulegt í sjálfu sér og rökrétt framhald þeirra tímamóta sem urðu með brottför varnarliðsins. Um væri að ræða lög, sem muni gilda um stjórnsýslu varnarmála á íslensku yfirráðasvæði og um samstarf við aðrar þjóðir um öryggis- og varnarmál.

Hún sagði m.a. að með frumvarpinu væri reistur lagalegur eldveggur milli varnartengdra verkefna og verkefna á sviði löggæslu og almannavarna. Frumvarpið útilokaði þó ekki að stofnað verði til samstarfs milli stofnana á sviði varnarmála annarsvegar og löggæslu hinsvegar.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði í umræðu um frumvarpið, að Alþingi hefði aldrei fyrr fjallað um varnarmál á þeim grunni, sem hér væri kynntur. Með frumvarpinu væri viðurkennt, að Íslendingar hafi hernaðarlegra öryggishagsmuna að gæta og þeir séu reiðubúnir að leggja nokkuð af mörkum í því skyni, án þess þó að koma á fót íslenskum her.

Björn vísaði til þess, að í frumvarpinu væri sérstaklega tekið fram, að lögin taki ekki til verkefna stjórnvalda, sem séu borgaraleg í eðli sínu, svo sem löggæslu og almannavarna. Frumvarpinu sé með öðrum orðum ekki ætlað að breyta neinu að því er varðar störf lögreglu eða landhelgisgæslu eða bein samskipti þessara mikilvægu öryggisstofnana við erlenda samstarfsaðila.

„Ég tel, að í frumvarpinu felist ný tækifæri fyrir þessar stofnanir til að tengjast betur samstarfsneti NATO-ríkjanna á því sviði, sem snertir borgaralega þætti öryggismálanna," sagði Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert