Geir nýtur mests trausts en Vilhjálmur minnst

Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Árvakur/Kristinn

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, nýtur mests trausts íslenskra stjórnmálamanna samkvæmt könnun, sem Fréttablaðið birtir í dag. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður borgarráðs, nýtur minnsts trausts samkvæmt könnuninni.

40,7% nefndu Geir þegar þeir voru spurður til hvaða stjórnmálamanns þeir bæru mest traust. Eru þetta ívið fleiri en nefndu Geir í samskonar könnun blaðsins fyrir ári. 16,3% nefndu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, einnig fleiri en fyrir ári. 9,1% nefndu Steingrím J. Sigfússon, formann VG, talsvert færri en fyrir ári. Næst komu Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, 6,9%, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, 4,4% og Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, 4%.

Þegar þátttakendur voru beðnir að nefna þá stjórnmálamenn sem þeir bæru minnst traust til nefndu 29,1% Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, 18,5% Össur Skarphéðinsson, 9% Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, 5,6% Ólaf F. Magnússon, borgarstjóra, og 4,3% Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Könnunin var gerð á laugardag og var hringt í 800 manns. 62% tóku afstöðu til spurningarinnar um mest traust og 55,4% til spurningar um minnst traust.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert