Sýknaður af ákæru fyrir alvarlega líkamsárás

Hæstiréttur hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið eða fleygt glasi í andlit annars manns fyrir utan veitingahús í miðbæ Reykjavíkur með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á efri vör og tvær framtennur brotnuðu.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninn í 6 mánaða fangelsi, þar af 4 mánuði skilorðsbundið, og til að greiða þeim sem fyrir árásinni varð rúma 1 milljón króna í bætur.

Hæstiréttur segir, að atvikið hefði gerst innan um hóp fólks. Langur tími hafi liðið þar til lögregla hóf rannsókn en það hafði áhrif á sönnunarmat í málinu og dró úr vægi myndsakbendingar sem sönnunargagns.

Þá vísaði Hæstiréttur til þess, að sá sem fyrir árásinni varð fékk upplýsingar um nafn þess sem var ákærður strax eftir líkamsárásina en sá var á þeim tíma þekktur handknattleiksmaður. Þá taldi dómurinn, að ekki yrði litið fram hjá þeim vafa sem hefði hlotist af skýrslugjöf vitnis fyrir lögreglu þar sem fram kom að það hefði hent glasi í átökum fyrir utan sama veitingahús.

Taldi Hæstiréttur að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sök þess sem ákærður var og hann var því sýknaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert