Undirbúa byggingu koltrefjaverksmiðju

Frá Sauðárkróki.
Frá Sauðárkróki. mbl.is/Einar Falur

Kaupfélag Skagfirðinga, Gasfélagið og Sveitarfélagið Skagafjörður hafa gert með sér samkomulag um stofnun undirbúningsfélags um að reisa koltrefjaverksmiðju á Sauðarkróki. Áætlað að heildarfjárfesting verksmiðjunnar sé 4-5 milljarðar króna og að hátt í 60 manns starfi í verksmiðjunni.

Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS, Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Gasfélagsins og Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri Skagafjarð undirrituðu samkomulagið á Sauðárkróki í dag að viðstöddum Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra og Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Heildar hlutafé undirbúningsfélagsins er 25 milljónir króna og munu KS og Gasfélagið leggja til 10 milljónir hvort félag og sveitarfélagið 5 milljónir til verkefnisins.

Verkefni hins nýstofnaða félags er að hefja þegar undirbúning að stofnun koltrefjaverksmiðju sem ætlað er að afkasti 1500 til 2000 tonnum af kolefnistrefjum á ári. Áætluð raforkunotkun slíkrar verksmiðju er 10 MW og felst undirbúningur að stofnunni meðal annars í að leita samninga um hagstæð orkukaup.

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur haft forgöngu um stofnun félags um uppbyggingu koltrefjaverksmiðju á Sauðárkróki og unnið að undirbúningi hennar í samvinnu við Fjárfestingarstofu, Hátæknisetur Íslands, Skagafjarðarhraðlestina og Atvinnuþróun SSNV.

Stefnt er að því að undirbúningsfélagið ljúki störum á næstu tólf mánuðum og að þá verði tekin afstaða til þess hvort verksmiðja verði reist. Komist aðilar að þeirri niðurstöðu að ráðast skuli í byggingu koltrefjaverksmiðju verður stofnað um hana sérstakt félag og gert um það nýtt samkomulag, á grundvelli þess samkomulags sem undirritað var í dag.

Fram kemur í tilkynningu, að koltrefjar séu notaðar sem styrkingarefni við framleiðslu á margs konar framleiðsluvörum. Koltrefjar leysi því af hólmi ýmis þekkt smíðaefni í iðnaði svo sem ál, timbur og stál, sérstaklega í iðngreinum þar sem léttleiki og styrkur eru leiðarljósið. Flugvélaiðnaðurinn nýti þetta efni í vaxandi mæli og sé ný kynslóð af farþegaþotum, svo sem Boeing 787 Dreamliner og Airbus 350, smíðuð að verulegu leyti með koltrefjum sem styrkingarefni. Koltrefjar stuðla vegna léttleika að minni orkunotkun, auk þess sem umhverfisáhrif við framleiðslu eru takmörkuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert