Hvetja fólk til að prenta peninga

„Nú er tækifæri til að kýla á það. Það er komin kreppa og þess vegna ætti fólk að drífa í því og prenta peninga. Að vísu fylgir sá böggull skammrifi að maður getur bara notað peninginn til að kaupa bækur," segir Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.

Á vefsíðunni bokautgafa.is er hægt að prenta út ávísanir, sem hver um sig gildir sem 1.000 króna greiðsla upp í íslenska bók, sem kostar að lágmarki 3.000 krónur. Landsmenn geta prentað út eins margar ávísanir og þeir kjósa. "Í tvær vikur gefum við ótakmarkað magn af peningum í bókahagkerfinu," segir Kristján. Vika bókarinnar hófst í gær og frá og með deginum í dag og til 4. maí gilda ávísanirnar í öllum bókabúðum.

Ávísuninni átti einnig að dreifa með 24 stundum í dag. Vegna bilunar í prentsmiðju Landsprents fylgdi ávísunin ekki blaðinu. Unnið er að því að tryggja að hún geti fylgt blaðinu á morgun, en bókaáhugamenn geta eins og áður segir prentað peninga að vild á bokautgafa.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert