Vill að frumvarpið verði fellt

 Margrét Guðnadóttir, fyrrverandi prófessor í veirufræði, hvetur Alþingi til að fella frumvarp um matvælalöggjöf sem nú er til umræðu á þingi. Hún telur sumar breytingarnar beinlínis hættulegar heilbrigði manna og dýra hér á landi. Halldór Runólfsson yfirdýralæknir telur hins vegar ekki miklar líkur á að lýðheilsu sé stefnt í aukna hættu með breytingunum. Meiri líkur séu á að sjúkdómar berist til landsins með fólki en með löglega innfluttu hráu kjöti.

„Að loknum lestri á frumvarpinu og samanburði á breytingatillögum, sem í því eru við gildandi lög, er mín niðurstaða sú, að þetta frumvarp eigi Alþingi að fella. Margar breytingatillögurnar eru bein afturför frá gildandi lögum, fáar eru skaðlausar, en sumar beinlínis hættulegar heilbrigði manna og dýra hér á landi,“ segir í upphafi greinargerðar Margrétar Guðnadóttur til landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar.

Hún segir að kúafaraldurinn, sem byrjaði í Bretlandi fyrir nokkrum árum, hafi sýnt veirufræðingum fram á hversu sóttvarnareglur Evrópusambandins reyndust þegar virkilega reyndi á þær. Hún hafnar algerlega þeirri kenningu að ákveðnir partar af sýktum nautgrip geti verið hæfir til manneldis. Margrét minnir á áralanga baráttu sem Íslendingar hefðu þurft að heyja við mæðuveiki í sauðfé og sullaveiki í mönnum. Óþarfi sé að flytja þessa sjúkdóma inn í landið aftur, hvað þá aðra sem ekki hafi verið hér eins og trikinosis í svínum, sem geti orðið að alvarlegum mannasjúkdómi við neyslu á menguðu svínakjöti. Margrét bendir á góðan árangur sem náðst hafi í baráttu gegn salmonellu og fleiri iðrasýkingum í menguðu kjúklinga- og svínakjöti. Ómögulegt sé að forðast þetta ef við förum að flytja inn ófrosna kjúklinga og svínakjöt samkvæmt reglum ESB.

„Ófrosið kjöt er ekki ferskt, ef ferðin frá slátraranum til neytandans tekur marga daga. Þeir dagar eru hins vegar mjög dýrmætir þeim sýklagróðri, sem kann að leynast í hrámetinu. Margir sýklar fjölga sér ört í hrámeti á nokkrum klukkutímum og ná miklu magni, ef kæling er léleg eða varan hlýnar upp í stofuhita einhvers staðar á langri leið til neytandans,“ segir Margrét.

Halldór Runólfsson yfirdýralæknir fjallar einnig um matvælalöggjöfina í Bændablaðinu sem út kom í vikunni. Hann segir að í upphafi samningaferlisins við ESB hafi verið sett fram skýlaus krafa um að áfram yrði bannað að flytja inn lifandi dýr og á það hafi verið fallist. Mest áhætta fylgi innflutningi á lifandi dýrum, en einhver áhætta fylgi innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti. Hann segir að þrátt fyrir að bannað hafi verið að flytja inn hrátt kjöt hafi á undanförnum árum verið veittar síauknar undanþágur frá þessu banni.

„Það eru sem betur fer tiltölulega fáir dýrasjúkdómar sem eru þekktir fyrir að berast með hráu kjöti og þá aðallega skæðir sjúkdómar sem ekki leyna sér ef þeir koma upp, svo sem gin- og klaufaveiki, fuglaflensa og svínapest. Kúariða berst til dæmis ekki með hráu kjöti, aðeins með menguðu kjöt- og beinamjöli, og sérstaklega var samið við ESB um varanleg ákvæði til að viðhalda áratugalöngu banni okkar á innflutningi þess,“ segir Halldór.

Hann segir að ESB hafi sett umfangsmikla löggjöf og eftirlit með dýrasjúkdómum sem allir dýralæknar í ESB og Noregi, Sviss og Íslandi fá jafnóðum tilkynningar um. Komi upp sjúkdómar sé strax lokað fyrir útflutning á hráu kjöti.

Halldór segir að í frumvarpinu séu ákvæði sem heimili okkur að koma í veg fyrir innflutning á kjúklingakjöti sem mengað sé kamfýlóbakter. Halldór segir að sníkjudýrin tríkínur geti leynst í svína- og hrossakjöti. Þessi sníkjudýr hafi aldrei greinst hér á landi og sjaldgæft sé að þau finnist í eldisdýrum í ESB. Þessi sníkjudýr geti hins vegar verið banvæn berist þau í fólk og því sé lögð gífurleg áhersla á eftirlit með þessu í kjötskoðun flestra landa. Hann segir að leitað hafi verið að tríkínum í hrossakjöti ætluðu til útflutnings frá Íslandi en nú verði leit að þessu sníkjudýri gerð að skyldu í öllu hrossa- og svínakjöti hér á landi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert