Hús HR rís við rætur Öskjuhlíðar

Svæðið þar sem verið er að byggja hús Háskólans í …
Svæðið þar sem verið er að byggja hús Háskólans í Reykjavík. mbl.is/RAX

Nýtt húsnæði Háskólans í Reykjavík við rætur Öskjuhlíðar er nú að taka á sig mynd en framkvæmdir við verkið hófust í byrjun árs. Byggingin verður að fullu tilbúin í ágúst árið 2010 og verður um 36.000 fermetrar að stærð.

Á svæðinu munu ekki aðeins nemendur og kennarar Háskólans í Reykjavík koma sér fyrir heldur verður þar einnig aðstaða fyrir nýsköpunar- og þekkingarfyrirtæki og „fyrsti vísir að þekkingar- og nýsköpunarsamfélagi á Íslandi þar sem háskóli og atvinnulíf taka höndum saman,“ segir Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs HR. Í framtíðinni er einnig gert ráð fyrir stúdentaíbúðum á svæðinu.

Háskólabyggingin er hringlaga og á hönnunin að styðja við þá stefnu HR að vera með góð samskipti á milli einstakra deilda og þverfaglega kennslu og rannsóknir á ýmsum sviðum. Miðjan eða kjarni háskólans verður yfirbyggt torg á þremur hæðum og þar verður margvísleg þjónustustarfsemi sem nýtist öllum deildum skólans. Út frá þessari miðju verða byggðar misstórar álmur í allar áttir, þar sem kennsla og rannsóknir fara fram.

Góðir grannar

Nágrannar Háskólans eru ekki af verri endanum; Landhelgisgæslan og baðgestir í Nauthólsvík. Höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar eru orðnar nokkuð aðþrengdar en Georg Lárusson, forstjóri Gæslunnar, segir að þrátt fyrir óvissu um framtíð starfseminnar sé ekkert neyðarástand á ferðinni. Aukin umferð vegna Háskólans í Reykjavík eigi eftir að hafa áhrif og spurning sé hvort hentugt sé að hafa starfsemi Gæslunnar í nábýli við háskóla. Mikill hávaði geti fylgt því að „keyra upp“ þyrlumótora og stundum þurfi þeir að vera í gangi tímunum saman vegna viðhalds. „Það er því spurning hvort nýju nágrannarnir eigi eftir að þola okkur,“ segir Georg.

Ný staðsetning, á hluta starfseminnar eða allri, er til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu og hafa bæði Keflavík og Akureyri komið til tals. Engin ákvörðun liggur enn fyrir. „Okkar framtíð er klárlega óljós en við erum þarna enn,“ segir Georg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert