Styðja Saving Iceland á hljóðlátan hátt

Það hefur verið heldur blautt í búðum Saving Iceland á …
Það hefur verið heldur blautt í búðum Saving Iceland á Hellisheiði. mbl.is/Frikki

Um fimmtán þátttakendur í vinnubúðum samtakanna Saving Iceland á Hellisheiði leituðu til byggða í nótt vegna veðurs. Miriam Rose, talsmaður samtakann, sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að fólkið hafi flest fengið inni hjá Íslendingum sem styðji samtökin á hljóðlátan hátt.

Þá sagði hún fólkið vera að tínast til baka enda sé veður á heiðinni að skána og veðurspá góð. Um fimmtíu manns voru í búðunum í gær og segir hún þá flest vera komna til baka auk þess sem fleiri hafi slegist í hópinn.

Miriam segir að kynningarstarfi, sem fram átti að fara í vinnuhópum í dag hafi verið frestað fram eftir degi, vegna þessa.

Þá segir hún verða vör við mikinn áhuga á starfi samtakanna ekki síst frá ferðamönnum, sem leggi jafnvel lykkju á leið sína til að koma við í vinnubúðunum.

Mirian Rose segir að þrátt fyrir að aðaláhersla sé nú lögð á undirbúnings og upplýsingastarfi,  í búðunum séu flestir þátttakenda þegar farnir að undirbúa aðgerðir sumarsins. M.a. standi til að bjóða upp á gönguferðir um þau svæði við Þjórsá, sem ógnað er af virkjunarframkvæmdum, þann 20. júlí. Þá verði haldin ráðstefna um menningarleg áhrif álframleiðslu bæði á Indlandi og Íslandi í Reykjavíkurakademíunni þann 23. júlí.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert