Uppselt á ferðamannastaði

Margir ferðahópar sem hingað koma eru algerlega á eigin vegum eða erlendra ferðaskrifstofa. Þeir kaupa varla matvæli og eldsneyti og nær enga þjónustu í landinu. Þá eru þeir oft með leiðsögumenn og bílstjóra sem eru fákunnandi um íslenskar aðstæður.  Ragnheiður Björnsdóttir  formaður Félags íslenska leiðsögumanna segir að stækkun ferjunnar Norrænu sé eitt stærsta slys sem íslensk ferðaþjónusta hafi orðið fyrir.

Ólöf Ýr Atladóttir ferðamálastjóri segir segir að það sé orðið  uppselt á marga vinsæla ferðamannastaði en skoða þurfi fleiri leiðir en gjaldtöku til að takmarka umgengni um vinsæl svæði.  Það geti alltaf komið upp sú staða að eftirlitið eitt og sér geti tekið tíma, orku og peninga  frá öðrum nauðsynlegum viðfangsefnum.  Þá vanti að láta kanna kostnað við að viðhalda náttúruperlum og tryggja aðgang að þeim fyrir almenning. Engin heildræn rannsókn hafi verið gerð á því þrátt fyrir að þeim stöðum fari stöðugt fjölgandi sem falli undir náttúruverndarlögin

Ragnheiður Björnsdóttir segir að landið beri ekki alla þá ferðamenn sem hingað komi að óbreyttu. Þessi þróun geti bara versnað ef ekki verði gripið til aðgerða. Leiðsögumenn vilja að erlendum hópum verði gert skylt að kaupa íslenska leiðsögn. Ólöf Ýr Atladóttir segir að það sé eitt af því sem þurfi að skoða en það geti reynst erfitt í framkvæmd vegna alþjóðlegra skuldbindinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka