Vilja breytingar á meirihlutasamstarfinu

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur.

Sjálfstæðismenn vilja sjá ákveðnar breytingar á meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hreyfing er í þá átt að taka upp samstarf við Framsóknarflokkinn og styrkja mögulega meirihlutasamstarfið með því. Einnig hefur verið þrýstingur á það að Sjálfstæðisflokkurinn fái borgarstjórastólinn fyrr en samið hafði verið um.

Framsóknarmenn útiloka ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, enda felst í því tækifæri fyrir flokkinn að komast aftur til áhrifa, en ólíklegt má telja að framsóknarmenn vilji fara í samstarf við Frjálslynda og verða þriðji flokkurinn í meirihlutasamstarfinu.

Undirliggjandi þreytu og óþolinmæði hefur gætt meðal sjálfstæðismanna um nokkurt skeið og ekki hafa skoðanakannanir bætt úr skák. Þær raddir heyrast að erfiðir tímar séu í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Því sé ábyrgðarhluti að renna ekki stoðum undir samstarfið þannig að meirihlutinn verði vandanum vaxinn.

Þá er óánægja meðal sjálfstæðismanna með það hvernig umræða hefur þróast um skipulags- og samgöngumál, m.a. vegna Listaháskólans og vegna Bitruvirkjunar. Ólafur F. Magnússon hefur sagt að virkjunin hafi verið slegin af, en það stangast á við orð Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa og stjórnarformanns OR.

„Það eru allir að springa“

Sjálfstæðismönnum þykir Frjálslyndir fullaðsópsmiklir í meirihlutasamstarfinu miðað við fylgi þeirra í síðustu borgarstjórnarkosningum. „Það eru allir að springa,“ sagði einn úr landsmálunum í gær.

Ljóst er að þessi umræða er ekki alveg ný af nálinni innan borgarstjórnarflokksins, því ekki voru allir borgarfulltrúar sáttir við myndun meirihlutans á Kjarvalsstöðum á sínum tíma. Haft er á orði að nýr kapítuli þurfi að hefjast með nýjum oddvita, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og til þess þurfi að rífa meirihlutasamstarfið upp úr þeim farvegi sem það er í.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka