Vonin er í kindinni

„Íslans gæti orðið fyrsta ríkið, sem verður fjármálakreppunni að bráð. En Ólafur Ragnar Grímsson forseti er afslappaður. Hann bindur vonir við aflabrögð og sauðfjárrækt. Von Íslands á tímum fjármálakreppu liggur í sauðkindinni.“ Þannig hefst fjögurra dálka frétt undir fyrirsögninni Frá féhirði til fjárhirðis á forsíðu Financial Times Deutschland, hinni þýsku útgáfu samnefnds dagblaðs, í gær.

Frétt blaðamannsins, Arne Delfs, hefst á lýsingu á Bessastöðum og er tekið fram að þangað megi komast án þess að öryggisverðir hefti för. „„Við erum enn með opið þjóðfélag, sem byggir á gagnkvæmu trausti,“ segir Ólafur Ragnar. Bændur og sjómenn koma til hans úr öllum landshornum til að sækja sér ráð – og upp á síðkastið hefur einnig fjölgað fólki, sem hefur áhyggjur af sparifé sínu og hlutafjáreign. Ástæðan er sú að grundvallarstoðir litla eyríkisins, sem óskaddað hefur staðið af sér marga jarðskjálfta, nötra í alþjóðlegu fjármálakreppunni.“

Í greininni segir að öldum saman hafi Íslendingar lifað nánast eingöngu á fiskveiðum og sauðfjárbúskap. Fyrir nokkrum árum hafi hins vegar ungir bankamenn fengið þá flugu í höfuðið að láta að sér kveða á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og rutt sér þar til rúms. Nú gæti hins vegar farið svo að fyrsta ríkið verði fórnarlamb fjármálakreppunnar.

Síðan bætir höfundur greinarinnar við: „Á þessum órólegu tímum er forsetinn eins og klettur í brimgarðinum. Þetta snúist um „stóran skjálfta í fjármálakerfinu“, segir Ólafur Ragnar. En efnahagur landsins hvíli á „traustum grunni“, segir hann til að róa undirsáta sína. Ísland búi með eldfjöllum sínum og hverum yfir óþrjótandi og hreinum orkuforða og auk þess séu enn stórir fiskstofnar í hafinu. Um stöðu bankanna segir hann af hyggjuviti ekki neitt. Í lok október kemur forsetinn í opinbera heimsókn til Þýskalands. Kannski verður hann með nokkur góð ráð í farangrinum. Þegar öllu er á botninn hvolft mætti setja nokkrar kindur á beit fyrir utan kanslaraskrifstofurnar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert