Ekki bara hryðjuverkalög

Eigur Landsbankans í Bretlandi sem í gær og fyrradag voru frystar, munu liggja óhreyfðar þar til bresk og íslensk stjórnvöld hafa komist að samkomulagi um hvað skuli gera við þær. Fjármálaráðherra Bretlands sendi Geir H. Haarde í gær bréf þar sem fram kemur að unnið verði sameiginlega að lausn þess máls.

Samkvæmt samtali við starfsmann breska fjármálaráðuneytisins í gær eru lögin sem Bretar notuðu til þess að þess að frysta eignirnar ekki eingöngu ætluð til þess að takast á við hryðjuverkastarfsemi. „Það er einn tilgangur þeirra en þau taka yfir úrval af öðrum hlutum,“ sagði hann. Heiti laganna er „asset freezing regime“ eða lög um eignafrystingu. Þeim var beitt þar sem ástandið var metið svo að aðgerðir Íslendinga sköðuðu þarlendan efnahag, í gegnum Icesave-reikninga. Bresk stjórnvöld gáfu út tvær „lokaviðvaranir um refsiaðgerðir“ frá því að morgni fyrradags, gegn Landsbankanum einum.

Undanþágur frá frystingunni

Þriðja plaggið sem ráðuneytið hefur birt er almennt leyfi sem undanskilur ákveðna starfsemi frá frystingunni. Það leyfi var gefið út í gær. „Það er gert til þess að tryggja að aðgerðirnar skaði ekki saklausan þriðja aðila, fyrirtæki til dæmis, sem þurfa á þjónustu Landsbankans að halda,“ sagði starfsmaðurinn. „Það leyfir ákveðin viðskipti í Landsbankanum í Bretlandi, þannig að einhverjir fjármunir mega flæða þaðan innan Bretlands. Hins vegar munu engir fjármunir fá að renna þaðan til Íslands,“ bætti hann við.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert