Fjármögnun viðbótarláns tryggð

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á blaðamannafundi í …
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi nú síðdegis, að búið væri að tryggja lán að fjárhæð 3 milljarðar dala, sem gert er ráð fyrir að íslenska ríkið þurfi til viðbótar við 2,1 milljarðs dala lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Geir sagði, að lánsféð kæmi aðallega frá Norðurlöndum og einnig frá fleiri löndum, svo sem Póllandi.

Fram kemur í yfirlýsingu, sem íslensk stjórnvöld hafa sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um efnahagsráðstafanir, að hrun bankakerfisins hafi leitt af sér talsverða þörf fyrir erlent lánsfé.  Gert sé ráð fyrir að þessi þörf sé 24 milljarðar Bandaríkjadala á tímabilinu til loka ársins 2010. Þar af séu um 19 milljarðar vanskil vegna skulda yfirteknu bankanna þriggja, svo og fjármagn til að gera upp nauðsynlegar greiðslur tengdar erlendum innstæðum, en afgangurinn sé sjóðsþörf að fjárhæð 5 milljarðar Bandaríkjadala.

„Við gerum ráð fyrir að 2 milljarðar Bandaríkjadala fáist með láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem skilur eftir afgangsfjárþörf er nemur 3 milljörðum Bandaríkjadala. Við gerum ráð fyrir að þetta bil verði brúað með tvíhliða lánssamningum og munum ljúka viðræðum þess efnis áður en stjórn sjóðsins tekur mál okkar fyrir. Mat á því hvernig gengur að mæta fjárþörf okkar verður hluti af ársfjórðungslegum endurskoðunum okkar og sjóðsins," segir í yfirlýsingunni.

Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, sagði á blaðamannafundi í Stokkhólmi í dag, að hann geri ráð fyrir að Svíar muni taka þátt í að veita Íslendingum lán. Áður verði íslensk stjórnvöld þó að leggja fram trúverðuga áætlun um hvernig koma eigi efnahagsmálum landsins í samt lag. 

Þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert