31,6% stuðningur við stjórnina

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. mbl.is/Brynjar Gauti

Ríkisstjórnin nýtur stuðnings 31,6% landsmanna samkvæmt könnun, sem Fréttablaðið birtir í dag. 68,4% segjast ekki styðja stjórnina. Hefur fylgi við ríkisstjórnina minnkað um 10 prósentur frá því blaðið gerði sambærilega könnun í október.

Blaðið hefur m.a. eftir Bjarna Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, að aðgerðaáætlanir fyrir heimilin og fyrirtækin, séu í smíðum. Þegar sú mynd verði dregin skýrar muni viðhorfin breytast. Haft er eftir Valgerði Sverrisdóttir, formanni Framsóknarflokks, að þetta sé afleit útkoma fyrir ríkisstjórnina enda hafi stjórnarandstaðan flutt vantrauststillögu á Alþingi.

Mestur er stuðningur við stjórnina meðal Sjálfstæðismanna,  88,2%, rúm 50,4% meðal Samfylkingarfólks, 21,1% meðal þeirra sem ekki gefa upp stuðning við flokk, 8,3% meðal framsóknarfólks og 3,8% meðal stuðningsmanna VG.

Samfylking er stærsti flokkurinn samkvæmt þessari könnun með 33,6% fylgi. 27,8% styðja Vinstrihreyfingina grænt framboð og 24,8% styðja Sjálfstæðisflokkinn. Fylgi Framsóknarflokks mælist 6,3%, fylgi Frjálslynda flokksins er 4,3% og 3,3% sögðust myndu kjósa einhvern annan flokk.

Hringt var í 800 manns laugardaginn 22. nóvember og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var: Hvaða flokk myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga nú? og tóku 49,9 prósent afstöðu, 29,4% vera óákveðin, 15% segjast myndu skila auðu. Einnig var spurt: Styður þú núverandi ríkisstjórn? og tóku 88,3 prósent afstöðu til spurningarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert