Yfirlýsing stjórnarformanns Stíms

Stím ehf keypti hluti í FL Group og Glitni við …
Stím ehf keypti hluti í FL Group og Glitni við stofnun félagsins fyrir samtals 24,8 milljarða króna. Friðrik Tryggvason

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Jakobi Valgeiri Flosasyni, stjórnarformanni Stíms ehf. og er hún birt í heild sinni:

„Vegna mikillar og oft rangrar umfjöllunar fjölmiðla um málefni einkahlutafélagsins Stím ehf. sé ég mig knúinn til að upplýsa um mína eignaraðild og aðkomu að félaginu. Jafnframt hef ég fengið leyfi annarra hluthafa félagsins til að opinbera hluthafalista Stím ehf.

Stím ehf. var stofnað 16. nóvember 2007. Í samþykktum félagsins kemur fram að tilgangur félagsins sé eignarhald, umsýsla, kaup og sala verðbréfa ásamt lánastarfsemi og öðrum tengdum rekstri. Ég hef gegnt stjórnarformennsku í félaginu frá upphafi og er í dag einn í stjórn þess. Samtals á ég 7,5%  hlut í Stím ehf. sem ég greiddi fyrir með reiðufé á sínum tíma. Ég vil taka það fram og ítreka að ég fékk ekki lánafyrirgreiðslu fyrir hlutafénu. Ég greiddi hlutaféð með eigin fjármunum. Þetta viðskiptatækifæri var kynnt fyrir mér af starfsmönnum Glitnis og mér boðin þátttaka ásamt fleiri fjárfestum.

Hlufhafalisti Stím ehf:
32,5% Félag stofnað af gamla Glitni sem ætlað var til endursölu
15% Gunnar Torfason
10% SPV fjárfesting hf.
10% BLÓ ehf.  - félag að fullu í eigu Óskars Eyjólfssonar
10%  Ofjarl ehf. – félag að fullu í eigu Jakobs Valgeirs Flosasonar og Ástmars Ingvarssonar
8,75% Viðskiptavinir  Saga Capital fjárfestingabanka
6,25% Saga Capital fjárfestingabanki
2,5% Jakob Valgeir Flosason
2,5% Ástmar Ingvarsson
2,5% Flosi Jakob Valgeirsson.

Stím ehf. keypti hluti í FL Group og Glitni við stofnun fyrir samtals 24,8 milljarða króna. Félagið keypti 3,8% hlut í FL Group fyrir 8,4 milljarða króna og 4,3% hlut í Glitni fyrir 16,4 milljarða króna. Glitnir lánaði félaginu samtals 19,6 milljarða króna vegna kaupanna, eða tæp 80%, sem er sambærilegt hlutfall og boðið var í framvirkum samningum hjá bönkum á þessum tíma. Glitnir var með tryggingu í öllum bréfunum. Lánið var kúlulán til tólf mánaða með 20,15% óverðtryggðum vöxtum og 1% lántökugjaldi.

Ég samþykkti að taka þátt í þessari fjárfestingu líkt og aðrir hluthafar og batt vonir við að bréf í bæði FL Group og Glitni sem höfðu lækkað mikið, myndu hækka umtalsvert á næstu tólf mánuðum. Þetta var í samræmi við væntingar á markaði á þessum tíma. Þessar væntingar gengu ekki eftir og hef ég tapað öllu því hlutafé sem ég lagði inn í Stím ehf.

Margar rangar fullyrðingar sem settar hafa verið fram í þessu máli snúa bæði að mér persónulega og félaginu.

Stím ehf. er ekki leynifélag. Félagið var myndað af hópi fjárfesta og í einu og öllu var stofnað til þess samkvæmt íslenskum lögum. Því hefur verið haldið fram að ég hafi fengið greitt fyrir að ljá félaginu nafn mitt. Þetta er alfarið rangt og ég setti eigin fjármuni í Stím ehf.

Ég undrast að bankaleynd í þessu máli hafi verið brotin og það svo gróflega sem raun ber vitni. Það eru mikil vonbrigði. Þetta hlýtur að vera öllum þeim sem stunda fjárfestingar og viðskipti hjá bankastofnunum mikið áhyggjuefni.

Í ljósi þessa hef ég ákveðið að upplýsa um lánastöður fyrirtækja í minni eigu að öllu leiti eða hluta sem eru í viðskiptum við Landsbankann. Samtals er um að ræða sjö fyrirtæki og þar á meðal er fiskvinnslufyrirtækið Jakob Valgeir ehf. sem er einn stærsti atvinnurekandi á Bolungarvík. Um er að ræða erlend lán og miðað við gengi íslensku krónunnar nema lán þessara félaga nú rúmlega 19 milljörðum króna. Fyrir einu ári námu þessar skuldir rúmum 8,5 milljörðum króna. Skuldir þessara félaga hafa því hækkað um rúma 10 milljarða króna á einu ári vegna gengisþróunar.

Að lokum vil ég segja að mér finnst fjölmiðlar hafa farið afar frjálslega með staðreyndir þegar kemur að Stím ehf. og minni persónu í tengslum við félagið. Ég hefði viljað komast hjá því að tjá mig opinberlega um mín persónulegu fjármál en tel mig tilneyddan til þess eftir þær rangfærslur sem ítrekað hafa verið settar fram. Ég óska jafnframt eftir því að einkalíf mitt og minnar fjölskyldu njóti þeirrar friðhelgi sem almennt er talið eðlilegt.

Reykjavík 29. nóvember
Jakob Valgeir Flosason, stjórnarformaður Stím ehf.“ 


Frá Frystihúsi Jakob Valgeir ehf.
Frá Frystihúsi Jakob Valgeir ehf. Helgi Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert