Siv: Vildi helst hlaupa í felur

Mótmælendur ruddust í dag upp á þingpalla, fram hjá þingverði sem reyndi að stöðva þau án árangurs. Hinir óboðnu gestir æptu og öskruðu og hræddu næstum því líftóruna úr Siv Friðleifsdóttur og fleiri þingmönnum.

Siv brá svo mikið að hún íhugaði að hlaupa bak við púltið og fela sig.  Grétar Mar Jónsson var hræddur við að fá egg í hausinn eða málningu. Flokksbróðir hans Guðjón Arnar Kristjánsson segist ekki hræddur við að fá egg í hausinn. Hann hafi fengið margar slíkar sendingar í Hornbjarginu.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, Siv og fleiri þingmenn, sem fréttastofa talaði við, vilja  herta öryggisgæslu í þinghúsinu.

Lögreglumenn á hlaupum, eltingaleikur og handtökur áhorfendamegin í þinghúsinu settu svip sinn á allan eftirmiðdaginn enda frestaðist þingfundur í klukkustund. Nokkrir mótmælendur voru handteknir og fluttir á lögreglustöðina. Þangað fóru félagar þeirra líka og ætluðu að bíða fyrir utan þar til þeim yrði sleppt. Lögreglan bauð þeim inn og svaraði spurningum þeirra í um klukkutíma.  

mbl.is

Bloggað um fréttina