Dagvara hefur hækkað um 30,6%

Sala á áfengi hefur dregist mikið saman á sama tíma …
Sala á áfengi hefur dregist mikið saman á sama tíma og verð á áfengi hefur hækkað umtalsvert. mbl.is/Ásdís

Verð á dagvöru hækkaði um 30,6% á einu ári, frá nóvember í fyrra til nóvember á þessu ári og um 3,9% í nóvember frá mánuðinum á undan. Áfengisverð hefur hækkað um 16,9% á tólf mánaða tímabili. Sala á áfengi minnkaði um 15,5% í nóvember miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og um 1,2% á breytilegu verðlagi.

Velta í dagvöruverslunum dróst saman í nóvember um 8,9% á föstu verðlagi, en þá er miðað við þá krónutölu sem er í gangi hvert sinn sem mælt er óháð öllum öðrum áhrifum, miðað við sama mánuð í fyrra. Á breytilegu verðlagi jókst velta dagvöruverslunar um 19,1% miðað við sama mánuð í fyrra, en þá á sér stað leiðrétting á verðlaginu með því að taka tillit til verðbreytinga sem hafa orðið á tímabilinu. 

Síðustu fjóra mánuði hefur velta dagvöruverslunar í hverjum mánuði verið minni en sömu mánuði árið áður að raunvirði, smásöluvísitölu verslunarinnar. 

„Miklar sveiflur hafa verið í veltu áfengis á undanförnum mánuðum. Eftir óvenjumikla veltuaukningu í október minnkaði salan aftur í nóvember um 28,5% á föstu verðlagi," að því er segir í tilkynningu.

Minna selst af fatnaði

Í nóvember varð einnig samdráttur í fataverslun miðað við sama mánuð árið á undan. Veltan minnkaði um 17,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og um 1,2% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum hækkaði um 19,8% á einu ári og um 2,5% frá mánuðinum á undan.

Velta skóverslunar minnkaði um 10,3% í nóvember á föstu verðlagi en jókst um 0,4% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Skóverslun hefur ekki verið minni frá því í mars síðastliðnum ef miðað er við fast verðlag. Verð á skóm hefur hækkað um 11,6% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Mikill samdráttur í sölu á húsgögnum

Í nóvember minnkaði velta í húsgagnaverslun um 43,4% á föstu verðlagi miðað við nóvember í fyrra og um 28,6% á breytilegu verðlagi. Þó húsgagnaverslun hafi verið mun minni í nóvember síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra jókst hún um 21,7% frá mánuðinum á undan. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 26,2% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Greinilegt er að efnahagssamdráttur og verðhækkanir hafa sett mark á smásöluverslun. Samdrátturinn bitnar fyrst og fremst á verslun með dýrar og varanlegar neysluvörur, en einnig á verslun sem selur matvörur og aðrar nauðsynjar, að því er segir í tilkynningu. 

Veltuvísitala dagvöruverslunar á föstu verðlagi og leiðrétt fyrir daga- og árstíðarbundnum þáttum hefur lækkað fjóra mánuði í röð og hafði dregist saman um 7,7% í nóvember frá júlí síðastliðnum.
 
Meiri samdráttur en um langt árabil

„Meiri samdráttur er í einkaneyslu nú en um langt árabil. Kaupmáttur launa var 5,8% minni í október síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra. Raunlækkun varð í greiðslukortaveltu á tímabilinu janúar til október um 6,1% miðað við sama tímabil í fyrra. Nýskráningar bíla voru 123 í nóvember og hafa ekki verið svo fáar frá því að Hagstofan hóf að birta þær tölur árið 1995. Þannig sjást skýr merki um að einkaneysla hefur dregist saman að undanförnu og líklegt verður að teljast að jólaverslunin verði minni í ár en í fyrra," að því er segir í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert