Niðurstaðan kemur ekki á óvart

„Þessi niðurstaða kemur okkur í sjálfu sér ekki á óvart. Við höfum alla tíð verið þeirrar skoðunar að Hagar væru í markaðsráðandi stöðu og hafi ítrekað misbeitt þeirri stöðu sinni og þannig um leið brotið samkeppnislög,“ segir Eysteinn Helgason, framkvæmdastjóri Kaupáss sem rekur m.a. Krónuna, Nóatún og 11-11.

Aðspurður segir hann niðurstöðu samkeppniseftirlitsins fyrst og fremst vera fagnaðarefni fyrir neytendur þar sem hún muni stuðla að mun heilbrigðari samkeppni á smásölumarkaðnum.

„Það gengur ekki til lengdar og er allt of mikil einföldun að halda því fram að sala undir kostnaðarverði komi neytendum til góða. Það liggur alveg í augum uppi að slíkur rausnarskapur er útilokaður til lengdar og auglýstir slíkir viðskiptahættir eru fyrst og fremst ætlaðir til að beita aðra minni aðila því fjárhagslega ofurefli sem fylgir markaðsráðandi stöðu. Það er þess vegna sem neytendasamtök og samkeppnisyfirvöld um allan heim leyfa markaðsráðandi aðila ekki að stunda slík undirboð,“ segir Eysteinn.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert