Það var ekki eftir neinu að bíða

mbl.is/Brynjar Gauti

„Auðvitað vitum við að það hefur verið meiningamunur milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um þessi hvalamál og það er ýmislegt sem hefur gert að verkum að það var erfitt að taka þessi mál upp núna, við þessar erfiðu aðstæður og þess vegna hefur málið legið í nokkru salti fyrir vikið. Vandamál vegna sölu kjöts eru hins vegar úr sögunni og því var ekki eftir neinu að bíða,“ segir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra eftir að hann gaf í dag út hvalveiðikvóta til næstu 5 ára.

Einar segist lítillega hafa rætt ákvörðun um að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni við Samfylkinguna án niðurstöðu.

„Ég hins vegar tók eftir því að einn ráðherra Samfylkingarinnar lýsti því yfir í fjölmiðlum að afstaða Samfylkingarinnar væri óbreytt. Það veit ég að ekki er talað fyrir hönd allra þingmanna þess flokks, því ýmsir þeirra hafa mjög hvatt mig til þess að heimila áframhaldandi hvalveiðar. Ég vek athygli á því að þetta er ekki ný ákvörðun, ákvörðunin var tekin árið 2006 og þetta er eingöngu framhald hennar,“ segir Einar.

Hann bendir á að atvinnuveiðar á hrefnu hafi staðið yfir frá árinu 2006 en veiðar á langreyðum legið niðri vegna markaðsmála. Nú séu þau vandamál úr sögunni.

„Og það er óumdeilt að ég hef hið stjórnskipulega vald til þess að taka þessa ákvörðun og þegar þessi mál komu síðast til minna kasta, þá sendi formaður Samfylkingarinnar, í nafni ráðherra Samfylkingarinnar, út yfirlýsingu þar sem sagði að það væri sjávarútvegsráðherra sem hefði hið stjórnskipulega forræði á útgáfu reglugerða af þessu tagi og það án þess að hún komi til afgreiðslu í ríkisstjórn.“

Einar segist síður eiga von á að nýr ráðherra sjávarútvegsráðherra breyti þessari ákvörðun.

„Nú veit ég auðvitað ekkert um það. Mér finnst það nú samt harla ólíklegt þar sem að baki liggja góð og gild rök en nýr ráðherra verður að svara því hvort hann breytir þessari ákvörðun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina