Fjórðungur tekna í afborganir og vexti af lánum

Reikna má með því að tæplega fjórðungur af ráðstöfunartekjum heimilanna hafi á síðasta ári farið í afborganir og vextir af lánum. Hefur hlutfall þetta hækkað á síðustu þremur árum vegna aukinnar skuldsetningar og hærri vaxta. Líklegt er að í ár muni heimilin greiða enn hærra hlutfall ráðstöfunartekna sinna í afborganir og vexti.

Gengisþróun krónunnar og mikil verðbólga ásamt háum vöxtum og lækkandi ráðstöfunartekjum leggst allt á eitt með að þyngja byrgði lánanna. Frysting lána hjálpar samt til við að lækka þennan kostnað tímabundið, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

„Heildargreiðslubyrði lána lækkaði nokkuð fram eftir áratugnum. Lækkun vaxta húsnæðislána ásamt lengingu lánstíma og hratt hækkandi ráðstöfunartekjum heimilanna lækkaði byrðina þó svo að skuldirnar hafi vaxið hratt. Fór heildargreiðslubyrðin niður í 18,2% af ráðstöfunartekjum heimilanna á árinu 2006 samkvæmt tölum Seðlabankans en hann byggir mat sitt á gögnum frá bönkunum og Hagstofu Íslands.

Var hlutfallið 22,5% árið 2004 eða á því ári sem bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn. M.v. spá um þróun ráðstöfunartekna, skulda, vaxta og afborgana áætlum við að þetta hlutfall hafi staðið í ríflega 24% á síðastliðnu ári.

Ofangreindar tölur eru meðaltölin. Ljóst er að afar mismunandi hvernig staða fólks er í þessum málum. Eftir aldri eru það fólk á þrítugs- og fertugsaldri sem eru skuldsettast og með hæstu greiðslubyrðina. Ljóst er að meðal þeirra sem verst standa eru þeir sem fóru í skuldsett kaup á húsnæði á síðustu metrum verðbólunnar sem var á þeim markaði fram til loka ársins 2007," að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert