Tvöföldun Suðurlandsvegar er forgangsmál

Suðurlandsvegur við Litlu kaffistofuna.
Suðurlandsvegur við Litlu kaffistofuna.

Sveitarstjórar sunnlenskra sveitarfélaga segja afar brýnt að setja sem fyrst í gang framkvæmdir við tvöföldun Suðurlandsvegar. Því komi hugmyndir Vegagerðarinnar um 2+1 veg nú á óvart. Sunnlenskir sveitarstjórar segja þessa stefnubreytingu í andstöðu við áherslur sveitarfélaganna.

Vegagerðin hefur tilkynnt til athugunar Skipulagsstofnunar frummatsskýrslu um Suðurlandsveg frá Hólmsá ofan Reykjavíkur að Hveragerði. Um er að ræða 31 kílómetra vegarkafla og er fjallað um þrjár mismunandi útfærslur í skýrslunni, þ.e. 2+2 veg með mislægum vegamótum á 7 stöðum, 2+1 veg með vegamótum í plani, en þá er gert ráð fyrir að akreinum sé síðar, þegar umferðarmagn kallar eftir því, fjölgað í tvær í hvora átt, þá hugsanlega með þröngu sniði.

Í sameiginlegri bókun allra bæjarfulltrúa í Hveragerði segir að bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hafi ítrekað fjallað um nauðsyn þess að tvöföldun Suðurlandsvegar verði sett í tafarlausan forgang.

„Ráðamenn þjóðarinnar ákváðu að gefa engan afslátt af umferðaröryggi og flutningsgetu vegarins og áttu framkvæmdir við 2+2 veg að vera hafnar. Þar af leiðandi koma hugmyndir Vegagerðarinnar um  2+1 veg nú á óvart og er sú stefnubreyting í andstöðu við áherslur  Hveragerðisbæjar og annarra sunnlenskra sveitarfélaga. Vegsnið eins og á Reykjanesbraut er eini raunhæfi kosturinn til framtíðar litið,“ segir í bókuninni.

Þá segir að afar brýnt sé að setja sem fyrst í gang framkvæmdir við tvöföldun Suðurlandsvegar. Í því skyni bendir bæjarstjórn á að framkvæmdir geta hafist nú þegar við tvöföldun frá Hólmsá til Hveragerðisbæjar enda er skipulagsvinnu á því svæði lokið.

„Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú ríkja í íslensku þjóðfélagi telur bæjarstjórn að skoða megi hvort ekki sé rétt að fresta framkvæmdum við mislæg gatnamót þar til betur árar en þess gætt að ekki verði gefinn neinn afsláttur af öryggi og flutningsgetu á Suðurlandsvegi.  Tvöföldun er ófrávíkjanlegt forgangsmál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert