Íslands sjálftökumenn hafa leikið lausum hala

mbl.is/Kristinn

„Í fjölmiðlaumræðu er því haldið fram að Íslands sjálftökumenn hafi getað leikið lausum hala utan laga og réttar og haft í frammi ótrúlega athafnasemi í þágu eigin velsældar. Því miður bendir margt til að svo kunni að hafa verið og að afleiðingar þeirra gjörninga verði upplifun landsmanna um ókomin ár.“ Þetta segja Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri í harðorðum leiðara, sem þeir rita sameiginlega í Tíund, blað ríkisskattstjóra.

Þeir segja að auk umsvifa í skjóli bankamúrsins hafi á síðustu árum bæst við leyndin um eignir skráðar í aflandsríkjum. „Virðast íslenskir bankar ekki hafa dregið af sér við þá iðju og sveipað félög Íslendinga þar leynd um eignarhald. Þótt það fyrirbrigði sé vissulega ekki séríslensk uppgötvun er þó ljóst að ýmsir Íslendingar hafa þar ekki verið aftarlega á merinni. Greining ríkisskattstjóra á eignarhaldi sýnir að leyndin um eignarhald og eigendur félaga skráðra í aflandsríkjum er vandamál sem brýnt er að taka á af festu. Meira að segja hefur sú skaðlega starfsemi sem þar er rekin fengið hið hlýlega heiti skattaskjól. Í því orðfæri felst á hinn bóginn grímulaus afstaða, skýli fyrir sköttum, þ.e. vilji til að komast hjá greiðslu skatta með því að dylja eignarhald fyrir yfirvöldum, meðeigendum og almenningi öllum,“ segir m.a. í greininni.

Við blasi að ef ekki náist tekjur og eignir úr skattaskjólum og ef á skorti að eignir hinna föllnu banka standi á móti gerðum kröfum muni þeir sem enga ábyrgð báru á hruninu sem hér varð, almenningur og hefðbundinn atvinnurekstur, þurfa að greiða aukna skatta vegna þeirrar afdrifaríku meðferðar fjármuna sem virðist hafa átt sér stað hjá nokkrum tugum manna sem flestir höfðu yfir sér huliðshjálm bankaleyndar og skattaskjóla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert