Undirbúa málsókn til varnar heimilum

Hagsmunasamtök heimilanna segja stjórnvöld og fjármálafyrirtæki sniðganga með öllu "sanngjarnar og hóflegar" tillögur samtakanna um leiðréttingu gengis- og verðtryggðra fasteignalána. Samtökin mótmæla því harðlega. Innan samtakanna er hópur fólks að undirbúa málssókn  til varnar heimilum þess landsins.

„Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt það til að lánveitendur og lántakendur skipti með sér þeim kostnaði sem til hefur fallið vegna efnahagskreppunnar.  Með því að velja greiðslujöfnun og hafna almennri leiðréttingu hafa stjórnvöld eingöngu ákveðið að lengja í hengingarólinni.  Heimilin eiga að halda áfram að setja stærstan hluta tekna sinna inn í greiðslur af lánum.  Þau skulu blóðmjólkuð.  Þegar því er lokið, munu lánastofnanir geta gengið að fasteignum heimilanna.  Samtökin óttast að næsta skref stjórnvalda verði að gera lánastofnunum auðveldara að stofna eignarhaldsfélög sem taka við íbúðum eftir nauðungarsölu, í þeim tilgangi að leigja út íbúðir til að hámarka arð af eignanáminu,“ segir á vefsvæði samtakanna.

Samtökin skora á lánastofnanir að bjóða ný lán með hagkvæmari kjörum og að taka án undanbragða á sig að minnsta kosti jafnar byrðar varðandi verðtryggð lán á móti lántakendum afturvirkt til 1. janúar 2008.

„Komi lánastofnanir ekki til móts við heimilin í landinu með því að létta á skuldabyrði þeirra og heildargreiðslubyrði, þá sjá samtökin ekki að það þjóni nokkrum tilgangi að fólk haldi áfram að borga af skuldum sínum. Það er val hvers og eins hvaða ákvörðun hann tekur, en samtökin spyrja: Hve marga þarf, sem hætta að greiða, til að opna augu fjármálafyrirtækja fyrir því að þau þurfa líka að færa fórnir?“

Vefsvæði samtakanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert