Hafa fengið nóg af Bretum

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að Íslensk stjórnvöld hafi fengið nóg í samskiptum við Breta vegna Icesave deilunnar.  Breski sendiherrann hefur verið kallaður í utanríkisráðuneytið í dag.

Össur segist telja að ummæli Gordons Brown um að bresk stjórnvöld séu í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hversu hratt Ísland greiði Icesave skuldirnar séu hrein vitleysa og ekki sannleikanum samkvæm. Að minnsta kosti hafi Íslendingar ekki vitað til þess og viðræður við Breta og Hollendinga vegna þeirra samninga séu tvíhliða og alls ekki í verkahring sjóðsins.

Hann segist ekki telja að Bretar séu að koma í veg fyrir að seinni hluti lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verði afgreiddur en þar sé beðið ákvarðanna í ríkisfjármálum. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Icesave skuldirnar eru tengdar Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Gordon Brown hefur áður talað með þeim hætti. Hann segist ekki telja að málið gefi tilefni til að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Það sé hægt að koma megnri óánægju og sterkum tilfinningum til skila með öðrum hætti en þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert