Áfengi og eldsneyti hækka

Alþingi samþykkti að hækka áfengis-, tóbaks- og eldsneytisgjald í kvöld.
Alþingi samþykkti að hækka áfengis-, tóbaks- og eldsneytisgjald í kvöld. mbl.is/Golli

Alþingi samþykkti á tólfta tímanum í kvöld frumvarp, sem gerir ráð fyrir að  áfengisgjald og tóbaksgjald hækki um 15%, bifreiðagjald hækki um 10%, olíugjald um 5 krónur og almennt vörugjald á bensín um 10 krónur. Stjórnarandstaðan hvatti fjármálaráðherra til að draga frumvarpið til baka.

32 þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna greiddu atkvæði með frumvarpinu en 22 þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Borgarahreyfingarinnar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, sat hjá þegar atkvæði voru greidd um efnisgreinar frumvarpsins eftir 2. umræðu.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu, að ríkisstjórnin væri gersamlega úr takt við fólkið í landinu og yki á vanda heimilanna en brygðist ekki við honum.

Frumvarpið fór tvívegis til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd í kvöld, bæði eftir 1. og 2. umræðu. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að fulltrúar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, sem komu á fund efnahags- og skattanefndar í kvöld, hefðu tekið undir gagnrýni stjórnarandstöðunnar á frumvarpið vegna þeirra áhrifa, sem það hefur á vísitölu neysluverðs og þar með verðtryggðar skuldir og rekstur ríkissjóðs. Eygló sagði, að fram hefði komið að frumvarpið kynni að hafa áhrif á viðræður ríkisins og aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála.

Þau Eygló, Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, og Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, skoruðu á fjármálaráðherra að draga frumvarpið til baka og kanna hvort ekki væri eitthvað hæft í þeirri gagnrýni, sem komið hefði fram á það.

Sagði Tryggvi Þór að verið væri að taka ákvörðun, sem líktist bútasaumi.  Fyrr í dag sagði Tryggvi Þór, að frumvarpið yki tekjur ríkisins um 2,7 milljarða króna á þessu ári en yki skuldir heimilanna um 8 milljarða vegna þeirra áhrifa, sem það hefur á vísitölu neysluverðs. Í kvöld benti hann einnig á, að fjárlagahallinn ykist vegna þess að persónuafsláttur í staðgreiðslukerfi skatta hækkaði.

Þór Saari sagði að þingmenn Borgarahreyfingarinnar hefðu í gær hitt fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í mjúkum stólum á Hótel Borg. Hafði hann eftir fulltrúum sjóðsins, að þeim þætti of seint hafa gengið af hálfu stjórnvalda  að gera þetta og hitt.

„Það sem kristallast í þessu frumvarpi er að ríkisstjórnin hleypur upp til handa og fóta til að þjónkast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna þess að hann er eitthvað að hrista hornin framan í hana og kemur fram með frumvarp sem er illa unnið og vont," sagði Þór og bætti við að frumvarpið myndi stórauka skuldir ríkissjóðs. Nauðsynlegt væri að afnema verðtrygginguna.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Íslendingar hefðu þróað flókið kerfi víxlverkana og verðtrygginga sem gerði það að verkum að aðgerðir af þessu tagi gætu haft áhrif á ýmsa aðra liði. Þetta væru sömu áhrif og samskonar aðgerðir fyrr í vetur hefðu haft. 

Hann sagði þessar aðgerðir miðuðu fyrst og fremst að því að vinna bug á þeim vanda, sem við væri að etja á yfirstandandi ári, sem væri sá að það stefni í 20 þúsund milljarða meiri hallarekstur ríkisins en lagt var upp með. Því væru málefnaleg sjónarmið fyrir því, að við núverandi aðstæður þyrfti fólk að greiða hærra verð fyrir áfengi, tóbak og eldsneyti.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka