Hárrétt viðbrögð flugmanns

Flugvélin á veginum eftir nauðlendinguna.
Flugvélin á veginum eftir nauðlendinguna.

Rannsóknarnefnd flugslysa segir, að rétt viðbrögð flugmanns, sem lenti á þjóðveginum um Holtavörðuheiði fyrir tæpu ári þegar hreyfill flugvélar hans missti afl, hafi leitt til þess hve nauðlendingin tókst vel.

Flugmaðurinn var á leið með farþega frá Reykjavík til Blönduóss á einshreyfils, tveggja sæta flugvél af gerðinni Cessna 150M. Flugmaðurinn undirbjó flugið með hefðbundnum hætti og starfaði hreyfillinn meðal annars eðlilega. Flugmaðurinn áætlaði um það bil tveggja stunda flug til Blönduóss.

Flugmaðurinn var ekki kunnugur flugleiðinni frá Reykjavík til Blönduóss og ákvað því að fylgja þjóðvegi 1 frá Borgarnesi til Blönduóss. Þegar flugvélin var að nálgast Norðurárdal varð flugmaðurinn var við að hreyfillinn fór að ganga óreglulega og féll snúningur hreyfilsins síðan rólega. Flugmaðurinn breytti  eldsneytisblöndunni og setti auk þess blöndungshitarann á. Það hafði ekki áhrif á gang hreyfilsins og eftir að hafa skimað yfir mæla flugvélarinnar tók hann eftir því að olíuþrýstingurinn hafði fallið. Skömmu síðar missti hreyfillinn allt afl.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, að flugmaðurinn beitti þá neyðarviðbrögðum og skimaði meðal annars eftir nauðlendingarstað. Þar sem  umhverfið var grýtt og ekki heppilegt til lendingar ákvað flugmaðurinn að lenda á þjóðvegi 1 í  sunnanverðri Holtavörðuheiðinni. Eftir að hafa fylgst með umferð bifreiða á veginum lenti flugmaðurinn  tókst lendingin vel.

Eftir lendinguna gekk flugmaðurinn frá flugvélinni þannig að hún truflaði umferð sem minnst.

Rannsóknarnefndin segir í niðurstöðum sínum, að í ljós hafi komið að olíurör hafi losnað, líklega vegna þess að ekki hafi verið gengið nægilega tryggilega frá því við síðustu yfirferð hreyfilsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert