Ný gjöld hækka tíu milljóna króna lán um 50 þúsund

Hærri gjöld ríkisstjórnarinnar á áfengi, tóbaki og eldsneyti hækka höfuðstól tíu milljóna króna verðtryggðs láns um fimmtíu þúsund krónur í ágúst.

Þetta eru ekki einu hækkanir á höfuðstólnum því eftir á að gera ráð fyrir öðrum hækkunum á eldsneytisverðinu, en bensín hefur nú hækkað um tæpar 20 krónur frá síðustu mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs. Haldist eldsneytisverðið því óbreytt fram yfir næstu mælingu bætast aðrar 20 þúsund krónur við höfuðstólinn, segir Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, sérfræðingur í hagfræðideild Landsbankans. Hún bendir á að reiknað sé með að fleiri liðir vísitölunnar, s.s. matvöruverð, hækki við næstu mælingu.

Bolli Héðinsson hagfræðingur segir hliðaráhrif af hækkun gjaldanna, að skuldir hækki, enn einn naglann í líkkistu krónunnar.

Algengasta lítraverð á bensíni á sjálfsafgreiðslustöðvum olíufélaganna var 181,30 krónur í gær. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), segir verðið aldrei hafa verið hærra: „Fyrra met stóð um mánaðamótin júní og júlí í fyrra, 177,40 krónur á lítrann.“

Félagið hefur reiknað út að eigandi Volkswagen Golf, sem tók bensín fyrir 7.755 krónur á fimmtudag, gæti hafa farið 627 kílómetra á tanknum. Degi síðar dugði peningurinn fyrir 571 kílómetra leið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert