Erfitt að skrifa undir

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir í Stjórnarráðinu í dag.
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir í Stjórnarráðinu í dag. mbl.is/Golli

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði vissulega erfitt að skrifa undir samkomulag, sem felur í sér að Íslendingar ábyrgjast 650 milljarða króna vegna innistæðna á Icesave-reikningum Landsbankans.

„En ég tel, að við séum með þessu að opna leiðir til að fást við þessa hluti áfram og tryggja að Ísland geti sjálft og á eigin forsendum glímt við þessa erfiðleika. Ég er algerlega sannfærður um, að ef við hefðum ekki náð lausn í þessu máli... þá hefðu þau sund lokast," sagði Steingrímur.

Steingrímur gagnrýndi harðlega, meðan hann var í stjórnarandstöðu, að Íslendingar ætluðu að taka á sig þessar skuldbindingar. Vísað var til þess á blaðamannafundi í dag, að í október hefði hann sagt að það yrði uppreisn ef Íslendingar yrðu látnir greiða þessar fjárhæðir. Þá sagði hann m.a. í grein í Morgunblaðinu í janúar, að taki Tryggingarsjóður innistæðueigenda við skuldunum vegna Icesave yrði ekki aftur snúið og þjóðin hefði endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem þáverandi ríkisstjórn hefði ekki dug í sér til að standa gegn. 

Í dag sögðu bæði Steingrímur og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á blaðamannafundi, að Íslendingar hefðu ekki átt annarra kosta völ en undirgangast þessar skuldbindingar. Jóhanna sagði, að Ísland hefði verið einangrað í þeirri afstöðu, að vegna kerfishrunsins þyrftu Íslendingar ekki að greiða þessar skuldbindingar. „Hefðum við látið reyna á það fyrir dómstólum er mjög líklegt að við hefðum tapað málinu," sagði hún.

Steingrímur sagði, einnig, að sá frágangur málsins, sem nú væri samkomulag um, sé allt annar og miklu betri en var í kortunum í vetur, bæði varðandi vaxtakjör og umbúnað. Niðurstaðan veiti Íslendingum langt og mikilvægt skjól til að glíma við þá erfiðleika sem við sé að fást í efnahagsmálum.

„Við fáum frið frá þessu máli í sjö ár og það er víst nóg af öðru til að takast á við á meðan," sagði Steingrímur á blaðamannafundi síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert