Útlánin eiga að greiða Icesave

Reuters

Gamli Landsbankinn metur virði þeirra eigna sem ganga upp í Icesave-skuldina á 1.195 milljarða kr. Þá er búið að taka tillit til þeirra eigna sem bankinn telur sig þegar hafa tapað.

Rúmlega helmingur eignanna er útlán til viðskiptavina og þorri annarra eigna er fjármálagjörningar með gjalddaga á næstu sjö árum. Auk þess er reiknað með 284 milljörðum kr. frá Nýja Landsbankanum vegna uppgjörs fyrir yfirfærðar eignir. Meðal þeirra sem Landsbankinn í London lánaði háar fjárhæðir voru félög í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og Baugs. Matið byggist á að allar eignir bankans verði greiddar á næstu 3-7 árum.

Í samkomulagi um greiðslu á Icesave-skuldinni sem náðist fyrir helgi er gert ráð fyrir að Tryggingasjóður innstæðueigenda á Íslandi greiði um 655 milljarða kr. til Breta og Hollendinga á næstu 15 árum. Lánið ber 5,5% vexti og fyrstu sjö árin ganga einungis eignir gamla Landsbankans upp í skuldina.

Daniel Gros, framkvæmdastjóri Center for European Policy Studies í Brussel, segir vextina alltof háa. „Ég held að þessir vextir skapi mikla áhættu fyrir Ísland og tel að þetta sé ekki gott samkomulag fyrir landið. Ég sé ekki að nokkurt land í heiminum sé með eins miklar erlendar skuldir og Ísland eftir þetta.“

Áætlað er að allar eignir gamla Landsbankans fari í að greiða niður Icesave-skuldina. Aðrir kröfuhafar bankans fái því ekki kröfur sínar greiddar. Nokkuð ljóst þykir að reyna muni á málsókn á hendur gamla Landsbankanum er fram líða stundir til að reyna að fá neyðarlögunum, sem settu innstæðueigendur í forgang kröfuhafaraðar, hnekkt. Indriði H. Þorláksson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, segir að ef slíkar málsóknir myndu tapast þá væru áhrifin mun víðtækari en einungis á Icesave-samkomulagið. „Ef ákvæðum neyðarlaganna verður hnekkt þá er allt í uppnámi. Það þýðir [...] að ríkisjóður situr ekki einungis uppi með Icesave-innstæðurnar heldur allar innstæður í íslensku bönkunum líka. Þær voru allar bakkaðar upp með þeim eignum sem voru færðar á milli á þeirri forsendu að innstæðurnar væru forgangskröfur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert