Risahvönn ógnar

Risahvönn í Laugarnesi. Ræktunin þar er að fara úr böndunum, …
Risahvönn í Laugarnesi. Ræktunin þar er að fara úr böndunum, segir Garðyrkjustjórinn í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmenn garðyrkjudeildar borgarinnar eru á varðbergi gagnvart útbreiðslu risahvannar. Hana er að finna á nokkrum stöðum í borginni og hún er orðin áberandi í Laugarnesinu. Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri, segir að þar verði hugsanlega eitrað gegn hvönninni í landi borgarinnar þar sem hún sé komin langt út fyrir einkalóð.

„Lóðarhafi í Laugarnesinu hefur farið langt út fyrir lóðarmörk með sínar aðgerðir og risahvönnin hefur auk þess dreift sér yfir allstórt svæði. Framkvæmda- og eignasvið hefur sent lóðarhafanum bréf þar sem bent er á að farið hafi verið út fyrir lóðarmörk og bregðist lóðarhafi ekki við muni borgin fara í lagfæringar á kostnað lóðarhafa. Ég tel að komið sé að því að við þurfum að eyða risahvönninni á þessu svæði,“ segir Þórólfur. Hann segir árangursríkast að nota illgresislyf gegn henni og vorin, áður en blöðin ná fullri stærð, séu besti tíminn til þess.

Þórólfur segir að risahvönn hafi verið ræktuð sem garðplanta hér á landi í áratugi og einn slíkur brúskur hafi lengi verið í Hljómskálagarðinum. Ekki skaði að hafa eina og eina plöntu, en í Laugarnesinu virðist ræktunin vera að fara úr böndunum.

Vill ekki rasisma í garðyrkjunni

„Ég trúi því ekki að til sé fólk sem vill vera með einhvern bótanískan rasisma,“ segir Hrafn Gunnlaugsson, leikstjóri og íbúi á Laugarnestanga. Honum hefur borist bréf frá borginni vegna hvannarinnar. „Ef eitthvað er gerir hún landið stórbrotnara og vex af krafti. Hún er ein þeirra tegunda sem vilja vaxa hér á landi. Fólk ætti að láta slíkt í friði og leyfa því að njóta sín, frekar en að pína túlipana og annað sem vill ekki vaxa hér til þess.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert