Fáir telja forsetann sameiningartákn þjóðarinnar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/RAX

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var nefndur sem sameiningartákn þjóðarinnar af 1% þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnun MMR nýverið. 72,1% telja sig ekki geta nefnt einstakling í samfélaginu sem sé eða geti orðið sameiningartákn fyrir íslensku þjóðina.

MMR kannaði hvort fólk gæti nefnt einhvern einstakling í samfélaginu sem væri eða gæti orðið sameiningartákn fyrir íslensku þjóðina. Af þeim sem nefndir voru fengu flestar tilnefningar þau Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands (4,5%) og Davíð Oddsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri (3,8%).

Þar á eftir komu þau Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, en ríflega 2% svarenda nefndu annað hvort þeirra. Þá nefndu rétt um 1% svarenda þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins og Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Aðrir voru nefndir af færri en 1% svarenda.

Rétt er að árétta að spurningin sem lögð var fyrir, tók hvorki tillit til þess hvort fólk styddi eða treysti einstaklingum sem nefndir voru, heldur eingöngu hvort fólk teldi að þeir væru eða gætu orðið sameiningartákn fyrir íslensku þjóðina, að því er segir í tilkynningu frá MMR.

Könnunin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina